138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[12:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með hæstv. heilbrigðisráðherra að þetta frumvarp er mikilvæg réttarbót. Ég fagna því að það sé komið fram. Ef maður les hina stuttu greinargerð sem fylgir því sér maður ágætlega þróunina sem orðið hefur í þessum málum. Ég ætla ekki að endurtaka það, hæstv. ráðherra fór yfir hana. Maður sér þróunina og þetta er eðlileg þróun að mínu mati. Þetta er eðlileg þróun, bæði með tilliti til framfara í heilbrigðistækninni og með tilliti til breyttrar samfélagsgerðar og samfélagslegra breytinga sem orðið hafa. Ég vil því fagna frumvarpinu og vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra verði að ósk sinni og þetta nái fram að ganga á þessu þingi. Ég mun gera það sem ég get til þess að svo megi verða. Ég á hins vegar ekki sæti í hv. heilbrigðisnefnd þannig að ég get svo sem ekki orðið að liði þar.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að fagna frumvarpinu út af annarri ástæðu. Það er vegna annars máls sem nefnt hefur verið staðgöngumæðrun. Hér finnst mér vera stigið ákveðið skref að því að við getum stigið það skref að leyfa staðgöngumæðrun vegna þess að það að heimila það að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun er ákveðið skref sem hefur kannski verið siðferðisspursmálið varðandi staðgöngumæðrun. Mér finnst við vera að klára það mál ágætlega hér. Það er því ekki mikið sem stendur út af varðandi það mál, og svo hins vegar það mál sem við ræðum hér í dag.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vil koma hér og lýsa ánægju minni með þetta frumvarp. Ég vona svo sannarlega að það nái fram að ganga.