138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[12:48]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er lagt til frumvarp um að einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi verði heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun, sama gildi um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör þar sem frjósemi beggja er skert. Mig langaði einfaldlega til þess að koma hér upp og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir þetta góða, mikilvæga og jákvæða frumvarp. Þetta er mikilvæg réttarbót og skref fram á við. Ég tek undir að þetta er rökrétt framhald á þeirri góðu þróun sem orðið hefur hér á landi í þessum efnum. Það er ekki svo ýkja langt síðan samkynhneigðum konum, pörum, og einhleypum konum, var heimilt að fara í tæknifrjóvgun, sem var gríðarlega jákvætt skref og tala ég þar af persónulegri reynslu. Þetta er áframhald af þeirri jákvæðu þróun, það er mikilvægt og í takt við breytta og fjölbreyttari samfélagsgerð, fjölbreyttari fjölskylduform, eins og hér hefur komið fram.

Eins og við vitum öll er löngunin til að eignast barn, ef hún er yfir höfuð til staðar, afar sterk. Fáar langanir eru jafndjúpar og sterkar og líklega er engin gleði á við þá gleði að eignast barn. Ber að þakka hæstv. ráðherra fyrir að útvíkka þennan farveg gleðinnar til fleiri einstaklinga sem bíða þess og vilja af heilum hug gerast foreldrar og veita börnum sínum ástríkt uppeldi.

Mig langar í lokin einungis að taka undir spurningu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um gjöf fósturvísa. Gjöf fósturvísa er áfram óbreytt í þessu frumvarpi. Ég tek undir þau sjónarmið hv. þingmanns að mér fyndist eðlilegt að gera það heimilt. Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir sjónarmiðum hennar í þessu en væntanlega verður þetta tekið í skrefum, eins og þessi mál hafa þróast, þannig að ég er viss um að við munum að endingu sameinast um að gera þetta heimilt líka.