138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það eru liðnir 535 dagar frá hruni íslensks efnahagslífs, það eru 408 dagar síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum og 408 dagar síðan hún lofaði því að slá skjaldborg um íslensk heimili. Íslenskar fjölskyldur og íslensk heimili voru fyrir hrun þau skuldugustu á byggðu bóli og þótti mörgum nóg um. Eftir hrun er skuldsetning íslenskra heimila geigvænleg og við henni verður að bregðast. Þess vegna er þyngra en tárum taki eftir þá 408 daga sem þessi ríkisstjórn hefur setið að menn deili enn þá um það hversu raunverulegur vandinn er. Við erum enn þá að reyna að átta okkur á grundvallaratriðum um það hvað íslenskar fjölskyldur skulda. Við erum ekki einu sinni komin á þann stað að gera okkur grein fyrir því hvernig eigi að mæta þeim vanda vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hver hann er. Þetta er stóra vandamálið sem við okkur blasir og þarna finnst mér nr. 1, 2 og 3 að ríkisstjórnin þurfi að taka sig saman og fara strax í að afla sér upplýsinga sem upp á vantar til þess síðan að geta áttað sig á til hvaða úrræða eigi að grípa.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fór í mikinn samanburð á milli þess hvort fara ætti í flatan niðurskurð eins og Framsóknarflokkurinn hefur boðað allt frá því í febrúar í fyrra eða hvort greiðslujöfnunarleið ríkisstjórnarinnar sé nægilega góð til að mæta ungum barnafjölskyldum. Ég held að slíkur samanburður muni ekki skila okkur neitt áfram með það mál sem hér er á ferðinni. Við Íslendingar óttumst það mest að ungar fjölskyldur flytji burt úr landinu. Við verðum auðvitað að grípa til þeirra ráða sem þarf til að koma í veg fyrir það. Í því efni finnst mér langbrýnast fyrir þessa ríkisstjórn og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að einbeita sér að því að finna út úr því hver hin raunverulega staða er og líka hvaða möguleika við höfum til að mæta henni.