138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Séreignarstefna í húsnæðismálum hefur lengi verið í öndvegi hér á landi. Stjórnvöld hafa staðið vörð um séreignarstefnuna með aðgerðum sem tryggja fulla atvinnu og tiltölulega létta skattbyrði. Auk þess hafa vaxtabætur verið notaðar til að niðurgreiða kostnað heimilanna vegna fasteignakaupa.

Árið 2004 hófu viðskiptabankarnir að bjóða upp á 100% lán til fasteignakaupa. Þjóðin stækkaði við sig og fjármagnaði kaupin að mestu með lánsfé. Margt ungt fjölskyldufólk nýtti tækifærið og eignaðist stærra húsnæði, húsnæði sem eldri kynslóðir höfðu eignast á mun lengri tíma.

Frú forseti. Skuldavandi heimilanna hefur aldrei verið jafnumfangsmikill og nú eftir hrun bankakerfisins og gengis krónunnar. Gömlu kreppuúrræðin eins og lengri vinnudagur og hækkun vaxtabóta duga því skammt. Grípa þarf bæði til sértækra og almennra aðgerða til að takast á við skuldavandann ef við ætlum ekki að missa ungt barnafólk úr landi til nágrannalandanna þar sem velferðarkerfið er mun betra. Til viðbótar við félagslega greiðsluaðlögun sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur kynnt verður að nýta svigrúm bankanna til almennrar leiðréttingar lána ef koma á í veg fyrir að stöðugt fleiri skuldug heimili fari fram af greiðslubrúninni.

Auk þess er verið að gera ungu barnafólki kleift að sleppa úr skuldafangelsi með því m.a. að veita því rétt til að skila lyklunum að íbúð sinni og fara í kaupleigukerfi. Með öðrum orðum þurfum við aðgerðir sem létta undir með heimilunum og gefa þeim kost á fleiri búsetumöguleikum. Það eru ekki allir sem vilja eignast eigið húsnæði.