138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég sé ekki að teygja þingskapalög um of með því að nýta þennan lið ekki beinlínis til andsvara heldur til að samfagna með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með þetta frumvarp. Hér er um mikið og stórt mannréttindamál að ræða. Það er líka á svona stundum sem maður veltir fyrir sér hversu lengi það getur tekið þjóðfélag að leiðrétta sjálfsagða hluti, að koma á sjálfsögðum réttarbótum. Það eru eitthvað um tíu ár síðan samkynhneigðum var leyfð staðfest sambúð. Það var mikið og stórt skref. Þá vorum við framsóknarmenn í ríkisstjórn og stóðum að því. Þetta hefur verið áhugamál allra flokka að stuðla að betri mannréttindum.

En samt sem áður spyr maður sig: Hvað er það í þjóðfélaginu sem kemur í veg fyrir að við tökum svona ákvarðanir miklu fyrr, að leyfa fólki einfaldlega að haga lífi sínu eins og það kýs, leyfa fólki að elska þann einstakling sem það elskar? Af hverju höfum við í öll þessi ár, í aldir og árþúsundir, lagt stein í götu þessa fallega markmiðs? Það er á svona degi sem við veltum þessum hindrunum úr vegi að maður tekst á við svona spurningar í huganum og ég fagna þessu.

Ég vil hins vegar nota tækifærið til að slá á létta strengi. Það eru tvær aðfinnslur sem ég tel þó markverðar við það framtíðarskipulag sem við erum að koma á. Við munum auðvitað stuðla að því að til verður sá hópur fólks sem á sér tvær tengdamæður og jafnframt verður til hópur barna sem mun, í tilviki (Forseti hringir.) tveggja karlmanna sem skilja, búa við endalausar pabbahelgar og það er auðvitað mismunun.