138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:49]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðuna. Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á um réttindi barns sem er getið og elst upp á heimili þar sem tvær konur eru mæður viðkomandi rakst ég á það fyrr í dag, þegar við vorum að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um tæknifrjóvganir og glasafrjóvganir þar sem talað er um einstaklinga — það eru mjög margir kaflar í þessu frumvarpi. Þetta er bandormur og það þarf að breyta mjög mörgum lögum víðs vegar í kerfinu og mér sýnist að við munum þurfa að taka mið af því sem hv. þingmaður var að benda á og breyta því vegna þess að þetta snýst ekki bara um það að vera kenndur við eða þekkja báða kynforeldra sína heldur snýst þetta um lagalega stöðu. Þetta er t.d. spurning um arf og alls kyns félagsleg og peningaleg réttindi. Þetta er fín ábending hjá hv. þingmanni og nokkuð sem ég ræddi við hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag þegar við fórum yfir þessi frumvörp af því að þau koma hvort ofan í annað. Það kann vel að vera, einmitt af því að þetta er svo flókinn lagabálkur og þessi breyting snertir svo marga málaflokka, að við í allsherjarnefnd þurfum að fá einhvern til að fara í gegnum allar greinarnar til að ganga úr skugga um að hvergi annars staðar sé svona misræmi eins og virðist vera þarna þannig að löggjöfin verði vel unnin og engin mistök gerð í meðförum allsherjarnefndar.