138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, formanni hv. allsherjarnefndar, fyrir að taka svona vel í þessa beiðni mína enda er augljóst að hún er þegar farin að velta þessum málum fyrir sér. Eins og hún benti réttilega á lýtur þetta að ýmsum grundvallarréttindum eins og réttinum til arfs. Þetta lýtur líka að því að ef um eina löggjöf er að ræða verði reynt að hafa sambærileg réttindi en ég geri mér jafnframt grein fyrir því að það kunna að vera ýmsar flóknar hliðar á þessu máli sem ég treysti staðfastlega að nefndin muni kanna til hlítar.