138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[16:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom þarna inn á mjög athyglisverðan punkt. Ég man ekki til þess að hann hafi verið ræddur í nefndinni eða í umsögnum. Slíkar kyrrsetningar geta valdið keðjuverkun. Ég ræddi í nefndinni nokkuð ítarlega um áhrif kyrrsetningar á einstaklinginn eða fyrirtækið sjálft en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvernig það gæti haft áhrif út fyrir fyrirtækið. Vil ég nú skerpa á þessari hugsun enn frekar því að það er mikilvægt að menn átti sig á öllu sem getur gerst, t.d. að fyrirtæki geti verið með skuldbindingar gagnvart bankastofnunum sem þær segja upp í kjölfar kyrrsetningar. Þær hafa til þess heimildir, t.d. getur yfirdrætti verið sagt upp, lánafyrirgreiðslu getur verið sagt upp af lánardrottnum og fyrirtæki geta þurft að staðgreiða mjög stórar upphæðir sem þau ráða ekkert við að greiða, sérstaklega af því búið er að kyrrsetja hluta eignanna fyrir skattskuldum. Þetta getur því haft þau áhrif að fyrirtækið verði fyrir miklu meira tjóni á fjárhag sínum eða lausafjárstöðu, hún getur bara horfið þótt það eigi fyrir eignum að öðru leyti, fyrir skattskuldinni o.s.frv. Það getur orðið til þess að aðilar eins og t.d. birgjar sem hafa selt fyrirtækinu fái ekki greitt. Þeir geta lent í miklum vandræðum, svona skattrannsókn getur tekið langan tíma. Það getur orðið til þess að þeir verða gjaldþrota. Þetta þekkjum við úr atvinnulífinu.

Ég held að það sé nú rétt að menn skoði þetta mjög nákvæmlega því að þetta hefur eiginlega ekkert verið rætt og er mjög hættuleg afleiðing af svona kyrrsetningu sem ég hefði aldrei áttað mig á. En það er ekki þar með sagt að ég vilji á einhvern hátt hætta við þetta frumvarp því að ég tel það vera mjög brýnt að skattyfirvöld fái tæki til þess að berjast gegn skattsvikum í stórum mæli sem við höfum orðið vitni að.