138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

virðisaukaskattur.

460. mál
[16:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisauka, sem snýr að bílaleigum. Þetta er mjög athyglisvert frumvarp. Ég er með á því þótt mér þyki það ekki ganga nógu langt. Það er athyglisvert að því leyti að það mun hafa töluvert mikil áhrif á stöðu heimilanna, frú forseti, ef vel er á haldið.

Hér er gert ráð fyrir því að bílaleigur þurfi ekki að kaupa nýja bíla. Í dag eru þær neyddar til að kaupa nýja bíla, þær geta bara keypt nýja bíla. Af hverju, frú forseti? Vegna þess að þá fá þær eftirgefin vörugjöld og virðisaukaskatt, en vörugjöldin eru mjög lítil, þau eru um 11%, ef ég man rétt. Bílarnir eru sem sagt niðurgreiddir af ríkinu til bílaleigna, ef þeir eru keyptir nýir, ef þeir eru fluttir inn til landsins og borgaðir með verðmætum gjaldeyri sem þjóðin á allt of lítið af í dag. Þetta er því ekki lítið mál. Þarna er verið að heimila bílaleigunum að kaupa notaða bíla af markaði og að þær njóti hluta af þessum hlunnindum, þ.e. þær fá ekki vörugjöldin eftirgefin, heldur virðisaukaskattinn. Það eru enn þá hlunnindi að kaupa nýja bíla nema að því leyti sem ég ætla líka að koma inn á, það snertir heimilin. Notaðir bílar eru miklu ódýrari hlutfallslega en nýir bílar. Nýir bílar hafa hækkað ofboðslega mikið eins og kunnugt er vegna þess að krónan hefur fallið um 30-40% og það verður til þess að nýir bílar verða mjög dýrir og allt að því óviðráðanlegir fyrir almenning, en notaðir bílar hafa ekki fylgt þar eftir.

Nú kann einhver að segja: Það er gott fyrir almenning að geta keypt sér notaða bíla, ódýrt. Það er alveg rétt, en það vill svo til að þegar einhver kaupir notaðan bíl er einhver annar sem selur. Sá sem selur er líka oftast nær einstaklingur sem selur bíl sem hann keypti jafnvel með gengistryggðum lánum sem hafa rokið upp í himininn en verðið á bílnum ekki, sem hefði gerst ef bílverðið hefði fylgt verði nýrra bíla. Það er því til hagsbóta fyrir þessa seljendur að bílverð á markaði fyrir notaða bíla hækki. Ef bílaleigurnar koma nú í stórum stíl inn á markaðinn fyrir notaða bíla, kaup- og sölumarkað, mun væntanlega verða eftirspurn þar og verðið hækkar. Ég tel að það sé ekkert voðalega slæmt, sérstaklega ekki fyrir þá sem eru í vandræðum með að losna við stóru jeppana sína og nýju bílana sem þeir keyptu með gengistryggðum lánum.

Ég benti á þetta í nefndinni. Það var nú dálítill misskilningur þar, sumir töldu að þetta væri slæmt fyrir heimilin því að það þyrfti að fara að kaupa notaða bíla dýru verði. Það er rétt að því leyti ef maður lítur bara á kaupendahliðina. Það er líka seljandahlið og hún er kannski öllu mikilvægari því að það fólk er í miklum vandræðum með skuldirnar sínar sem hafa hækkað eins og gengið, en bílarnir ekki. Þess vegna var ég á móti því að hafa þarna 15% mörk. Menn sögðu að það gæti verið slæmt vegna þess að ef þessi mörk væri afnumin mundi það valda því að menn færu að misnota þetta og þetta gæti verið svindl og annað slíkt. Ég hef reyndar ekki enn þá séð svindlið. Ef einhver selur bílaleigubílinn og hann er seldur á hærra verði hljóta bílaleigurnar, sem eru ekkert voðalega margar, hreinlega að borga of mikið fyrir bílinn, þær tapa á því. Ef þær selja bílinn aftur um haustið, sem sumar þeirra munu gera, myndast tap í fyrirtækinu. Ég hugsa að menn reki ekki fyrirtæki almennt til þess að tapa á þeim, síst af öllu bílaleigur.

Ég sé ekki alveg möguleikann á því að menn svíki undan skatti þarna vegna þess að nýir bílar eru styrktir miklu meira þar sem vörugjöldin sem koma þar inn í eru lækkuð frá 45% niður í 11%. Þegar sú aðgerð var gerð fyrir bílaleigurnar að lækka skattinn úr 45% niður í 11% benti ég á það að menn gætu farið að stofna sínar bílaleigur, bara þingmenn allir saman, leigt sjálfum sér bílana sína og þannig notið þessa virðis. Ég held að það hafi verið settur einhver fyrirvari við því að menn gætu ekki sjálfir tekið bílinn á leigu sem þeir væru að kaupa, að einhver vinnustaður gæti stofnað bílaleigu og keypt sinn bíl með 11% vörugjaldi og leigt sjálfum sér.

Ég stend að þessu frumvarpi. Ég vildi bara benda á að þetta hefur þau áhrif að verð á notuðum bílum kann að hækka og sérstaklega ef þessi mörk, 15%, sem þýða, ég man ekki hvort það eru þúsund bílar eða eitthvað svoleiðis, verði felld niður.

Svo vil ég benda á að það að neyða bílaleigurnar til að kaupa nýja bíla þýðir ekkert annað en gjaldeyriseyðslu fyrir þjóðina í heild þannig að það er að því leyti slæmt. Ég hefði viljað að menn skoðuðu þetta meira út frá því sjónarmiði að reyna að nýta þann bílaflota sem er í landinu, sumir hverjir eru ónotaðir vegna þess að fjölskylda sem á tvo, þrjá bíla, eins og var því miður algengt 2007, getur ekki rekið þá í dag þannig að þeim er bara lagt. Við erum með heilmikið af ónotuðum bílum þess vegna sem stæðu til reiðu fyrir bílaleigurnar sem gætu keypt þá og það er þjóðhagslega hagkvæmt.