138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka, um fjármálaþjónustu, við EES-samninginn.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og sent frá sér nefndarálit. Þar kemur m.a. fram að nefndin fékk á sinn fund fulltrúa úr utanríkisráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti til að ræða efni þessarar tilskipunar og þessara breytinga. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 4. júlí 2008, um breytingu á IX. viðauka um fjármálaþjónustu við EES-samninginn frá 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44 frá 5. september 2007, um breytingu á tilskipun ráðsins 92/49/EBE um tilskipun 2002/83/EB, 2004/39/EB, 2005/68/EB og 2006/48/EB að því er varðar reglur um málsmeðferð og viðmiðanir vegna varfærnismats við yfirtökur og aukningu eignarhlutdeildar í fjármálageiranum.

Þessi tilskipun frá 2007 inniheldur tæknileg atriði er varðar virka eignarhluti í lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum með leyfi til verðbréfaviðskipta. Helstu breytingar sem hér er verið að fjalla um eru:

1. Breyting á skilgreiningu hugtaksins virkur eignarhlutur.

2. Ekki er lengur gert ráð fyrir umsókn um samþykki fyrir því að mega eignast eða fara með virkan eignarhlut, heldur er þar um að ræða tilkynningar í staðinn.

3. Nákvæmari reglur um viðbrögð lögbærs stjórnvalds við tilkynningu aðila um að hann hyggist eignast eða auka við virkan eignarhlut, svo sem um tímafresti.

4. Reglur um framkvæmd mats lögbærs stjórnvalds á hæfi þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut. Upptalning viðmiða sem hafa skal hliðsjón af við slíkt hæfismat.

5. Lögbært yfirvald getur sett sig upp á móti kaupum eða aukningu á virkum eignarhlut á grundvelli tæmandi viðmiða. Ef þau gera ekki athugasemd innan tiltekins tímafrests öðlast viðkomandi sjálfkrafa rétt til að fara með hlutinn.

Innleiðing þessarar tilskipunar mun kalla á breytingar á ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi og á lögum um fjármálafyrirtæki, en frumvörp um breytingu á báðum þessum lögum hafa verið lögð fram á Alþingi og eru nú til meðferðar hjá viðskiptanefnd. Þar hefur allmikil umræða farið fram um efni beggja frumvarpanna en nefndin mun væntanlega ljúka umfjöllun um þau á yfirstandandi þingi.

Utanríkismálanefnd leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ögmundur Jónasson.