138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er lagt til að vanskilum við skattinn verði að gefnum ákveðnum forsendum hægt að breyta í skuldabréf sem er vaxtalaust í 18 mánuði og verðbótalaust, þ.e. það má segja að það sé um 10–15% gjöf að ræða til þeirra sem þar skulda. Síðan á að vera sérstakt skuldabréf til fimm ára sem er vaxtalaust en með verðbótum og sem er aftur gjöf, þannig að ég hugsa að þetta sé svona um 25% gjöf sem um er að ræða.

Ég lagði til í breytingartillögu sem ég er búinn að draga til baka að settir yrðu 5,5% á vextir á þessa upphæð. Kjörvextir Íslandsbanka eru í dag 5,5% ofan á verðtryggðar skuldir eða lán og það er það lægsta sem fyrirtæki borga fyrir verðtryggðar skuldir, ég vildi gera þetta af samkeppnisástæðum.

Svo var mér bent á að mjög stór hluti af þessum kröfum verður aldrei greiddur. Þetta eru áætlanir o.s.frv. þannig að ég (Forseti hringir.) féllst á þau rök að það sé ekki ástæða til að hafa vexti á þessu og hef þess vegna dregið tillögu mína til baka en segi já.