138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[17:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er á ferðinni viðleitni til þess að koma til móts við grafalvarlega skuldastöðu íslensks atvinnulífs. Það kom fram við vinnslu þessa frumvarps að uppsafnaðar skuldir íslensks atvinnulífs gagnvart skattinum er orðnar á annað hundrað milljarðar kr. Það er grafalvarleg staða þar á ferðinni. Við sem höfum talað fyrir því að leiðrétta beri skuldir heimila og ekki þá síst fyrirtækja sem eru í miklum erfiðkleikum nú um þessar mundir, að þessar tölur sanna það að róttækra aðgerða er þörf í þágu íslensks atvinnulífs ef við ætlum ekki að horfa upp á fjöldagjaldþrot og mikið atvinnuleysi í íslensku samfélagi á næstu mánuðum.

Ég fagna þessu skrefi sem er því miður of lítið til að koma til móts við vanda íslensks atvinnulífs en þetta er þó viðleitni í rétta átt og vonandi munum við á vettvangi efnahags- og skattanefndar á næstunni skoða hvert svigrúm bankanna er til þess að koma til móts við skuldugt íslenskt atvinnulíf (Forseti hringir.) því að aðgerða er þar þörf og svigrúmið er fyrir hendi eins og við framsóknarmenn höfum sagt í á annað ár.