138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina hér spurningu til hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, framsögumanns nefndarálitsins: Var það rætt í hv. sjávarútvegsnefnd — af því að nú eru lögin þannig í dag að menn geta farið inn á tímabilinu þó að tímabilið sé hafið, þ.e. þetta er frá 1. maí til 1. september og þá getur maður farið inn í júní eða júlí eða jafnvel ágúst en það er ekki heimilt að fara út úr, þ.e. að skip sem fer inn 1. maí gæti ekki farið út úr kerfinu fyrr en í lok fiskveiðiársins, þ.e. 1. september — að leyfa það líka að menn gætu farið út úr kerfinu áður en tíminn er liðinn og kannski farið þá á aðrar veiðar en mættu þá að sjálfsögðu ekki koma inn aftur, ef þær færu inn á einhverju tímabili, hvort það hafi verið rætt í nefndinni að þeir færu út. Þetta er fyrsta spurningin.

Ég vil síðan fá að spyrja hv. þingmann um það þegar svæðaskiptingin var — þegar ég talaði um þetta frumvarp síðasta vor eða sumar höfðu menn uppi miklar væntingar og stór orð um það að byggðakvótinn væri ósanngjarn og ekki alltaf réttlátlega úthlutað. Það væri forsenda fyrir því að láta hann renna inn í strandveiðarnar til þess að gera það með réttlátari hætti. Hver er ástæðan fyrir því að fallið er frá því að hafa byggðakvótann áfram inni, eða hluta af honum, eins og var síðast, og var það rætt í sambandi við svæðaskiptinguna? Nú er þetta þannig að það er opið fyrir hæstv. ráðherra að útfæra það nánast eins og honum dettur í hug. Það kemur fram í nefndarálitinu og í frumvarpinu að það verði hugsanlega fjögur svæði eða jafnvel einhver önnur tala. Hefur þetta verið rætt eitthvað frekar?