138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að spyrja hann enn frekar út í svæðaskiptinguna. Það er talað um að hún verði nánast óbreytt eins og hv. þingmaður upplýsti að hæstv. ráðherra hygðist gera. Þá vil ég spyrja: Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um það hvernig hæstv. ráðherra ætlar að skipta aflamagninu inn á svæðin, vegna þess að þegar þessu var skipt inn á svæðin á síðasta fiskveiðiári var það að hluta til gert í samræmi við byggðakvótann, verður einhver breyting á því? Ég vil líka spyrja hvort menn ætli að fylgjast eitthvað með því að menn séu að færa til fyrirtækin eins og mjög mikið var gert í fyrra. Menn færðu heimilisfangið til þess að komast inn á svæðin. Ég spyr: Hver er ástæðan fyrir því að það er nauðsynlegt að hafa svæðaskiptingu? Af hverju má ekki vera eitt svæði og síðan yrði aflamagninu skipt niður á mánuði ársins, þessa fjóra — hver er ástæðan fyrir því að það er ekki framkvæmanlegt að mati hv. þingmanns?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það ákvæði í frumvarpinu að það megi róa alla daga nema föstudaga og laugardaga og síðan eru verslunarmannahelgin og aðrar fríhelgar tilgreindar og þá getur hæstv. ráðherra sett bann við því að róa. Hvers vegna var sunnudagurinn ekki tekinn — ef þetta er svona eins og hv. þingmaður sagði, að þetta væri hugsað fyrir nýliða inn í greinina, þá mundi maður halda að þeir hefðu nú aflögu tíma yfir vikuna, af hverju eru það þá ekki laugardagur og sunnudagur sem eru teknir frá í staðinn fyrir föstudagur og laugardagur þannig að (Forseti hringir.) opinberir starfsmenn séu ekki að róa mikið á þessum dögum?