138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Strandveiðarnar í fyrra voru tilraun og ég hygg að ágæt reynsla hafi komist á þetta. Ég sagði að svæðaskiptingin yrði líklega að mestu óbreytt, það er ráðherra sem ákveður það.

Það var spurt af hverju þessu væri skipt í svæði en ekki miðað við landið í heild sinni. Það var til að þetta gengi á alla landsbyggðina. Það var tilgangurinn að menn sæktu ekki inn á sama svæðið og veiddu allt á sama svæðinu heldur til að hleypa lífi í sjávarbyggðir um allt land, það var megintilgangurinn með því að svæðaskipta þessu með þessum hætti þannig að bátarnir færu ekki allir inn á eitt svæði og kláruðu það á stuttum tíma.

Hvað varðar svæðaskiptinguna og annað slíkt kom í ljós í fyrra að það veiddist minnst á suðursvæðinu en mest á vestursvæðinu og var kvótinn kláraður þar tiltölulega fljótt. Ég hygg að ráðherra muni hafa hliðsjón af því en reynslan af þessu er samt ekki nægileg að mínu mati. Það er bara búið að stunda þetta eitt sumar eða reyndar part úr sumri, það var ekki allt tímabilið, en ég hygg að ráðherra muni taka mið af þessari reynslu.

Hvað varðar spurninguna um róðrardagana þá var í upphaflegu frumvarpi, að mig minnir, talað um mánudaga til föstudaga. Þá kom fram gagnrýni á það að fiskur sem bærist á land á föstudögum yrði hugsanlega ekki unninn fyrr en á mánudegi og þá var þetta fært í það horf að taka út föstudaga og laugardaga en leyfa sunnudagana. Það er líka umhugsunarefni og það er umhugsunarefni hvort í því ljósi ætti að vera með fjóra daga, mánudaga til fimmtudags í þessu tilviki. Þegar þessu var breytt yfir á sunnudagana kom líka fram gagnrýni frá fiskmörkuðum á það. Fiskmarkaðir gagnrýndu veiði á föstudögum og svo gagnrýndu þeir líka veiðina á sunnudögum. En ég hygg nú að fiskurinn sé í býsna góðu ástandi á mánudagmorgni, veiddur á sunnudegi og komið með hann í land á sunnudagskvöldi.