138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mín framtíðarsýn í sjávarútvegi að margbreytileg útgerð og fiskvinnsla, fiskveiðifyrirtæki og útgerðarfyrirtæki geti starfað hlið við hlið, allt frá einyrkjanum upp í stærri fyrirtæki. Ég get framlengt rökin sem LÍÚ hefur beitt í þessu máli og í skötuselsmálinu, sem að vissu marki komu fram hjá hv. þingmanni, yfir í það að eflaust væri hægt að ná öllum afla á Íslandsmiðum hjá einu fyrirtæki og nokkrum vinnslum. Ég sé ekki þá framtíð fyrir mér í veiðum og vinnslu.

Ég vil leiðrétta það að 3% hafi verið tekin — ég þekki nú ekki þessa tölu, 3%, en þetta er viðbót við úthlutun aflaheimilda eða hámarksaflamarks frá síðasta hausti.

Það er algjörlega klárt í mínum huga að þetta fyrirkomulag mun skapa verulega mikla vinnu og hleypa lífi í landsbyggðina. Það er alveg öruggt að þarna skapast mjög mikil vinna og þarna skapast fjölbreytni og flóra sem er okkur lífsnauðsynleg í fiskveiðum og -vinnslu.