138. löggjafarþing — 103. fundur,  12. apr. 2010.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis.

[15:01]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Klukkan 10 í morgun var mér sem forseta Alþingis, að viðstöddum varaforsetum og formönnum þingflokka, afhent skýrsla nefnda sem skipaðar voru samkvæmt lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Skýrslan hefur verið afhent öllum alþingismönnum. Hún var frá sama tíma aðgengileg almenningi um land allt á netinu og er komin í bókaverslanir. Nefndirnar héldu í morgun blaðamannafund þar sem efni skýrslunnar var kynnt. Ég á von á því að fjölmiðlar muni í dag og fram á kvöld kynna efni skýrslunnar, bæði meginþætti hennar og einstök atriði. Almenn umræða á Alþingi um skýrsluna hefst á morgun, þriðjudag kl. 13.30.

Þegar á morgun hefst umfjöllun um skýrsluna í þeirri nefnd sem Alþingi hefur með sérstökum lögum falið að fara yfir skýrsluna og móta viðbrögð Alþingis við efni hennar. Þar verður um tímamótastarf að ræða. Aldrei áður hefur eftirlitshlutverk Alþingis verið jafnfyrirferðarmikið. Það skiptir miklu máli að vel takist til. Eftirlitshlutverk Alþingis er eitt af meginviðfangsefnum þess eins og flestra þjóðþinga. Þann þátt í störfum Alþingis þarf að efla og koma skipulega fyrir í daglegum verkefnum þess. Tillögur í þeim efnum liggja á borði forsætisnefndar og eru í fullri vinnslu.

Áður en tekið er fyrir eina dagskrármálið, skil á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, vil ég fyrir hönd Alþingis færa þeim sem rannsóknarnefndirnar skipuðu, sem og starfsfólki þeirra, hinar bestu þakkir fyrir gríðarlega mikið og erfitt starf undanfarna 16 mánuði. Framlag þeirra til uppbyggingar þjóðfélagsins eftir hin miklu áföll í október 2008 er mikilvægt og ein af forsendum þess að halda megi á vit nýrra tíma með von í brjósti.