138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp vegna orða hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar sem hún tiltók og hvatti fulltrúa þriggja stjórnmálaflokka umfram fulltrúa annarra til að sitja yfir umræðunni. Ég vil í upphafi umræðunnar hvetja okkur öll til að taka þátt í henni og til að gera það án þess að vera í fyrir fram gefnum skotgröfum sem mér fannst af ummælum hv. þingmanns að hún væri dálítið föst í.

Ég tek þessa skýrslu mjög alvarlega. Ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn tekur hana mjög alvarlega og ég beini því til okkar allra að við sýnum þessari umræðu þá virðingu sem hún á skilið og tökum öll þátt í henni á okkar forsendum og eftir því hvernig við kjósum að nálgast viðfangsefnið, en umfram allt án þess að vera í pólitískum skotgrafahernaði.