138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það kom ekki fram fyrr en á síðasta þingflokksformannafundi að það væri ákveðið að hefja umræðuna á þriðjudegi. Upphaflega stóð til að þessi umræða hæfist á miðvikudegi. Reynsla mín af að malda í móinn hefur verið sú að það er yfirleitt ekki hlustað á þennan minnsta örminnihluta hérna þannig að ég ákvað að það væri of skammur tími til að fara í miklar umræður á þingflokksformannafundi og reyna að senda einhvers konar formlega beiðni um að þessu yrði breytt, að Hreyfingin mundi senda frá sér yfirlýsingu. Þetta er allt of skammur tími sem þingmenn fá til að kynna sér efni skýrslunnar. Það komu yfirlýsingar í gær. Það hefði mér fundist nóg og að þingmenn hefðu fengið færi á að ræða um þetta sín á milli í dag og með sínu fólki.