138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætlega málefnalega innlegg hér í umræðu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í máli hv. þingmanns var, eins og vænta mátti, víða komið við og farið aftur í tímann allt aftur til einkavæðingar bankanna, sem hv. þingmaður taldi að hefði mistekist. Ég get í sjálfu sér tekið undir það með hv. þingmanni að það var ýmislegt í umgjörð einkavæðingarframkvæmdarinnar sem hefði mátt betur fara og ég hef vikið að því áður hér í mínu máli. Það mátti skilja hv. þingmann sem svo að menn hafi gengið of langt í einkavæðingunni og hann nefndi sem dæmi að menn hefðu ekki átt að einkavæða Landsbankann. Ég velti því fyrir sér þegar ég hlýði á mál hv. þingmanns hvort hann telji að með því að selja ekki Landsbankann hefði verið komið í veg fyrir það sem hér gerðist, eða hvaða önnur dæmi um einkavæðingu eru það annars sem hv. þingmaður er með í huga þegar hann telur að við höfum gengið of langt í einkavæðingunni? Hvar er það sem hv. þingmaður telur að ríkið eigi að standa í viðkomandi rekstri frekar en einstaklingar eða framtakssamt fólk hér í landinu?

Hv. þingmaður kom jafnframt inn á það að við hefðum innleitt t.d. reglur Evrópusambandsins án nauðsynlegrar aðlögunar. Það er athyglisvert sjónarmið, að við þurfum að gæta okkar á Evrópureglunum. Það vekur athygli mína þegar það kemur frá samfylkingarþingmanni að það kunni að leynast ýmsar hættur í því að leiða hér í lög reglur Evrópusambandsins. En að vissu marki tek ég undir þetta með honum og það á sérstaklega við um það sem lýtur að fjármálamarkaðnum.

Hvaða tillögur voru það annars sem þeir, sem gerðu athugasemdir í einkavæðingarferlinu, komu fram með? Hvaða tillögur komu um strangara regluverk? Hvaða tillögur komu um meira aðhald með bönkunum, strangara eftirlit o.s.frv.? (Utanrrh.: … í sjónvarpinu í gær.) Ég kannast ekki við að hafa heyrt margar slíkar tillögur, en í svona stuttu máli er auðvitað ekki (Forseti hringir.) tækifæri til að rekja fleiri dæmi úr ræðu hv. þingmanns. Ég þakka honum að öðru leyti fyrir málefnalegt innlegg í umræðuna og vil (Forseti hringir.) jafnframt láta þess getið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun taka þátt í umræðunni og fjalla um sinn hlut eins og hv. þingmaður gerði fyrir hönd Samfylkingarinnar.