138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að með strangara regluverki hefði verið hægt að mæta öllum þeim vandamálum sem hv. þingmaður vék hér að en taldi að rétta lausnin væri að byggja á eignarhaldi ríkisins. Varðandi regluverkið að öðru leyti fannst mér gæta of mikillar tilhneigingar í máli hv. þingmanns til þess að leggja byrðarnar á þingið en ganga þá um leið út frá því að eftirlitinu hafi ekki verið ábótavant. Ég held að það sé ekki tímabært að skera úr um að hve miklu leyti lögin og reglurnar voru ófullkomin og að hve miklu leyti eftirlitinu var ábótavant. Það mun auðvitað skýrast og við sjáum það í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að þar eru augljósar vísbendingar um að eftirlitinu hafi einmitt verið ábótavant. Við hljótum þá að líta á það sem ábendingu um að í einhverju hafi verið gagn að reglunum þó að þeim hafi ekki verið fylgt.

Síðan vil ég líka láta þess getið að (Forseti hringir.) ég saknaði þess í máli hv. þingmanns að hann fjallaði skýrar og meira um þá sem mesta ábyrgð bera, sem eru þeir sem brutu reglurnar og gengu allt of langt og fóru augljóslega (Forseti hringir.) langt fram úr sér í rekstri bankanna.