138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið þó að ég verði að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á þessu innleggi í sáttaumleitanir varðandi framhald málsins.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður vék að, svo ég komi bara beint að því. Ég tilgreindi að Samfylkingin hefði verið á vaktinni og það er ekkert nýtt. Við höfum alltaf gengist við því og við höfum beðist afsökunar á sofandahættinum. Ég var í félags- og tryggingamálanefnd sem formaður, sat í menntamálanefnd og hirti ekki um að skoða og fylgjast með fjármálakerfinu. Þó var það þannig að Samfylkingin kallaði til Fjármálaeftirlitið, fór yfir allar kennitölur frá Fjármálaeftirlitinu og kallaði eftir öllum þeim álagsprófum sem lögð höfðu verið á bankana viku fyrir hrun, þar sem allt var í lagi. (Gripið fram í: … ekki sjálfur 2006?) Ja, það er spurningin um það hver átti að sjá um hvað og hverjir. Við skulum bara viðurkenna að menn stóðu ekki vaktina á þeim tíma. Það er ágætt, fyrst hv. þingmaður bendir á það, að hann segi þá frá því hverjir sátu við stjórnvölinn á þeim tíma. Það var tekið upp úr skýrslunni. Ég var að lesa upp úr þeirri skýrslu sem við erum að fjalla um að þetta hafi því miður verið komið í þvílíkt óefni árið 2006 að erfitt sé að sjá að það hefði mátt bæta þar úr árin 2007 eða 2008. Þó tók ég fram að við hefðum getað minnkað skaðann og þar berum við fulla ábyrgð. Við skulum ekki reyna að fela okkur. Það er jafnsorglegt ef menn ætla að beina athyglinni varðandi bankahrunið að tveimur árum. Hví skyldi sá sem hér talaði á undan mér og kom með andsvar vilja hafa þau gleraugu? Það væri gott ef hann skýrði það.

Við skulum reyna að nota þá umræðu sem verður í dag þannig að hún verði hreinskilin. Ég reyndi að vera það vegna þess að mér er mikið niðri fyrir eins og mörgum öðrum í þessu landi varðandi hvernig fór og ég vil leita ástæðnanna langt aftur í tímann vegna þess að þar voru gerð grundvallarmistök. Auðvitað er alveg klárt að ég hef brugðist í því að tala ekki miklu harðar gegn einkavæðingarhugmyndum og einstaklingshyggju en ég gerði með fátæklegri ræðu (Forseti hringir.) í skólanum mínum á þeim tíma.