138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að þeim sem hér stendur sé mikið niðri fyrir varðandi þessa skýrslu var það ekki hugmyndin að taka illa þeirri gagnrýni sem fram kemur á mál mitt. Ég get tekið undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það ber að skoða allt tímabilið og það á ekkert að draga undan. Það á að skoða hverjir báru ábyrgð. Það þýðir, af því að í skýrslunni er farið inn í þetta tímabil síðustu tíu árin, að við eigum að skoða allt þetta tímabil. Samfylkingin á ekki að vera þar nein undantekning.

Það sem angrar mig oft í málflutningi hv. þingmanns er að það koma fram fullyrðingar sem ég kannast ekkert við, að Samfylkingin hafi þrætt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn og hafi leynt því. Þannig búa menn til sögu. Af hverju eru þeir að búa það til og kalla okkur svo spunameistara? Hættum þessu. Þetta þurfum við að losna við. Við ætlum að vinna saman að lausnum. Ég skal ekki víkjast undan að draga fram allt það sem við gerðum vitlaust (Forseti hringir.) en það þýðir ekki að við felum það sem aðrir voru að gera á undan. Umhverfið sem við bjuggum við réð miklu og það var megininntakið í ræðu minni, umhverfið en ekki ásakanir á einstaka menn eða flokka.