138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Hann gekkst við ábyrgðinni, það er ljómandi gott og það eigum við öll að gera. Hann ræddi hins vegar um einkavæðingu og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hafi breyst í regluverkinu sem kemur í veg fyrir það sem gerðist, vegna þess að ríkisstjórnin er nefnilega búin að einkavæða tvo banka núna og við vitum ekki einu sinni hverjir eigendurnir eru, hvað þá meira. Þess vegna finnst mér skjóta dálítið skökku við. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hafa menn gert eitthvað til að koma í veg fyrir að það sama gerist aftur með þessa einkavæddu banka?

Hv. þingmaður lauk ræðu sinni með því að hvítþvo hæstv. forsætisráðherra og taldi hana vera málsvara og baráttumann fyrir gagnsæi. Nú ætla ég ekki að fara í gömlu hjólförin, ég ætla að reyna að passa mig á því, en ég man eftir Icesave-samningnum sem var undirritaður og ekki kynntur stjórnarþingmönnum sem samþykktu þó að heimila ríkisstjórninni að skrifa undir. Ég minni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn o.s.frv. Ég minni líka á skattalagabreytingarnar sem voru framkvæmdar án nokkurs samráðs við einn eða neinn og keyrðar í gegn með hraði og ég minni á Seðlabankann sem átti allt í einu að breyta öllu en breytti engu. Mig langar til að spyrja í kjölfar þess að það er svo mikið gagnsæi núna hvort við fáum þá ekki að vita á morgun um það samkomulag sem gert var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, af því að ég er að hugsa til framtíðar. Mig langar til að vita hvort þingmaðurinn viti það og hvort hann muni krefjast þess að nú fáist gagnsæi í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.