138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekkti einu sinni gamla konu sem þannig var komið fyrir að henni var farið að förlast svolítið heyrn og þá sagði hún við mig að hún heyrði það sem hún vildi heyra. Hæstv. utanríkisráðherra er á góðum aldri og þetta á auðvitað ekki að henda hann.

Hæstv. utanríkisráðherra bar það upp á mig að ég hefði sagt að Sjálfstæðisflokkurinn bæri ekki ábyrgð á einu eða neinu. (Utanrrh: Nei, ég dró þá ályktun.) Það var hins vegar þannig að ég sagði það skýrt að Sjálfstæðisflokkurinn bæri ábyrgð, ég sagði það skýrt að ýmis mistök hefðu verið gerð. Af því segir hæstv. utanríkisráðherra að hann dragi þá ályktun að ég hafi sagt að Sjálfstæðisflokkurinn bæri enga ábyrgð. Ég var þvert á móti að fara í gegnum það að í ýmsum hlutum hlytum við auðvitað að bera ábyrgð og við ætluðum ekki að víkjast undan henni.

Hæstv. utanríkisráðherra spurði mig um þetta varðandi íbúðalánin og skattalækkanirnar. Ég fór yfir það. Ég sagði að Sjálfstæðisflokkurinn bæri auðvitað ábyrgð á því, við vorum í ríkisstjórn þegar ákvarðanir voru teknar um íbúðalánin. Við vorum líka í ríkisstjórn þegar ákvörðun var tekin um það á miðju ári 2008 að auka enn í, auka enn lánveitingarnar frá Íbúðalánasjóði. Auðvitað berum við á þessu ábyrgð. Ég var hins vegar að reyna að setja þetta inn í það nauðsynlega sögulega, pólitíska samhengi sem við þurfum að hafa til hliðsjónar þegar við förum yfir þetta.

Það voru uppi mjög ákveðnar skoðanir á Alþingi í kringum 2007 að þegar vel gekk og menn sáu að ríkissjóður var rekinn með miklum afgangi, þegar tekjurnar voru miklar, var krafan um það að skila því m.a. til almennings í formi lægri skatta. Við sjálfstæðismenn stóðum að því, við vorum baráttumenn fyrir því en við vorum hins vegar í þeirri stöðu að það voru ekki allir sem viðurkenndu að við gengjum nægilega langt. Samfylkingin taldi t.d. að skattalækkunarhugmyndir hennar gengju lengra.

Við skulum ekki fara í svona skotgrafahernað. Við skulum bara einfaldlega horfa til þess að við erum hér að ræða skýrslu sem leggur okkur þá skyldu (Forseti hringir.) á herðar að reyna að læra af mistökunum, horfast í augu við þau, en umfram allt að byggja upp.