138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að við eigum að reyna að draga lærdóm af þessari skýrslu. Ég er þeirrar skoðunar að margvísleg mistök hafi verið gerð og ég hef tekið þátt í því og ber mína ábyrgð á því. Þess vegna má hv. þingmaður ekki misvirða það við mig að ég hlustaði á ræðu hans sem talsmanns Sjálfstæðisflokksins hérna og ég dró þá ályktun af ræðunni að honum fyndist sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert gert og það hefði ekkert hent hann sem hægt væri að segja að ætti þátt í þessu.

Mér er síðan mikil sæmd að því að vera líkt við gamla konu. Ég held að gamlar konur séu vitrustu Íslendingarnir og ég held að það sem stundum eru kallaðar kerlingabækur séu bestu bækurnar og fullar af mestum sannleik.

En spurning mín laut að einkavæðingunni og hún var ekki að ástæðulausu. Ég tel að einkavæðingin, sem ég á sínum tíma í prinsippinu studdi en greiddi ekki atkvæði með, hafi átt verulegan þátt í þessu. Menn muna það þegar ráðist var í einkavæðinguna að þá var mikill samhljómur hér í þinginu um að það væri í lagi að einkavæða bankana ef það væri gert með dreifðri eignaraðild. Hugsanlega voru þeir sem nú eru í VG ekki þeirrar skoðunar [Hlátur í þingsal.] en að öðru leyti var samhljómur í þinginu um það. Við hurfum frá stuðningi við það vegna þess að á síðasta metranum skipti Sjálfstæðisflokkurinn um stefnu. Hann hætti við dreifða eignaraðild og menn vita hvaða stefna var tekin. Tvær stórar blokkir fengu bankana og ég tel að það hafi verið mistökin.

Spurning mín til hv. þingmanns er þá þessi: Er hv. þingmaður sammála því sem formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sagði í beinni útsendingu hérna í þinginu í gær, að það hefðu verið mistök af Sjálfstæðisflokknum að hverfa frá stefnunni um dreifðu eignaraðildina? Og er hv. þingmaður sammála mér um að þessi mistök — sem hv. þm. Bjarni Benediktsson (Forseti hringir.) í sjálfu sér setti ekki fram, það er mín skoðun — eigi (Forseti hringir.) afdrifaríkan þátt í stöðunni sem við erum í núna?