138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:57]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér ljóst að við erum að hefja umræðuna og ég vildi óska að andsvar mitt væri bara tekið sem innlegg í þá veru að hér á þinginu situr fólk sem fer fram á að umræðan verði skýr en ekki þvoglumælt, að við tölum um staðreyndir en ekki spuna, að við öxlum ábyrgð en tölum ekki um að axla ábyrgð. Það er allt og sumt sem mig langaði til að koma á framfæri í svipinn.

Það er eðlilegt að umræðan sé kannski ekki dýpri eða nákvæmari en hún er núna því að menn hafa ekki haft tíma til að lesa alla skýrsluna nema þá þeir sem eru kraftaverkamenn í lestri. Sjálfur hef ég aðeins lesið fyrsta og sjöunda bindið enn þá, sem eru jafnskuggaleg hvort á sinn hátt. Fyrsta bindið inniheldur helstu niðurstöður nefndarinnar og í sjöunda bindinu er að finna einhverja stórkostlegustu kafla sem kvikmyndagerðarmenn mundu sennilega kalla „comic relief“, þ.e. leikhús fáránleikans, sem útskýrir kannski miklu betur en staðreyndaupptalning í grófum ýkjustíl það sem gerðist. Væri þetta skáldsaga mundu allir segja að þessi skáldsaga væri mjög langt frá þjóðfélaginu okkar.

En ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir andsvarið og ég vil nota þetta tækifæri til að taka það fram að rannsóknarnefnd Alþingis, sem greinilega hefur unnið mjög merkilegt starf, verðskuldar sem og þjóðin öll að sú rannsóknarnefnd sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er formaður í skili sínu verki af ekki (Forseti hringir.) minni ábyrgð og vandvirkni.