138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður byrjaði að ræða um kattasmölun og hvað mér þætti um slíkt. Ég verð að viðurkenna að ég er algjörlega reynslulaus í kattasmölun, ég hef aldrei tekið þátt í slíkri smalamennsku en hef þó oft verið í sveit og í annars konar smalamennsku. Ég held að ég tjái mig ekki frekar um hvað mér finnist um hlut sem ég hef enga reynslu af eða þekkingu á. (Utanrrh.: En viltu ekki læra það?) Ef hæstv. utanríkisráðherra er að bjóða upp á námskeið í kattasmölun verður það að sjálfsögðu tekið til sérstakrar athugunar. Nú veit ég ekki hvort utanríkisráðherra var að bjóðast til þess sjálfur eða bjóða aðra fram í það en það kemur þá í ljós. (Gripið fram í.)

Hvað varðar einkavæðingu bankanna er hv. þingmanni hugleikið að spyrja um hina síðari einkavæðingu, sem hann kallar svo. Þetta mál hefur margoft verið til umfjöllunar á vettvangi Alþingis og eins og litið hefur verið á málið eignaðist ríkið ekki bankana við hrun. Það voru auðvitað kröfuhafarnir sem áttu þá og það sem hér var um að ræða var að koma þeim aftur út með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það var ekki um einkavæðingu að ræða í þeim skilningi sem hv. þingmaður leggur bersýnilega í það orð.

Ég held hins vegar að hv. þingmaður, af því að hann talar mikið um þetta mál sérstaklega, ætti að hugleiða það sem skýrslan segir um einkavæðingu bankanna upp úr aldamótunum og hvernig að henni var staðið. Mér finnst að hann ætti að vera uppteknari af því að reyna að draga lærdóm af þeim mistökum sem þá voru gerð og þeim viðhorfum og sjónarmiðum sem þar lágu að baki en að tengja það við alls óskylda hluti, sem fólu í sér að koma bönkunum, sem voru að sjálfsögðu í raun í höndum kröfuhafanna eftir hrun, í (Forseti hringir.) starfsemi á nýjan leik.