138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir afar góða og málefnalega ræðu. Ég vil nota þetta tækifæri og óska honum sem nefndarformanni og nefndinni allri alls velfarnaðar í störfum sínum. Þetta er gríðarlega mikið verk og hv. þingmaður gerði afar vel grein fyrir því hvernig vinnu nefndarinnar verður háttað. Ég, eins og væntanlega flestallir þingmenn aðrir en þeir sem sitja í nefndinni, hef ekki gert mér grein fyrir því hvernig störfum nefndarinnar verður háttað og því þótti mér afar gott að fá þetta yfirlit.

Ég er aðeins að velta fyrir mér því sem hv. þingmaður talaði um, að tíminn væri knappur og ætlast væri til að nefndin skili í september, hvort hann telji að sá tími dugi. Megum við vænta þess að nefndin muni skila af sér í tíma? Ef það liggur þannig fyrir núna, í upphafi starfsins, að þetta verði ef til vill meira verk tel ég betra að gefa nefndinni einfaldlega rýmri tíma strax í upphafi frekar en við förum aftur í gang í það ferli sem rannsóknarnefndin fór því miður í. Ég er ekki að gagnrýna það, ég held að það hafi verið frestur sem var nauðsynlegur og hafi skilað af sér góðu verki. Ég held að það væri betra fyrir alla, bara upp á væntingar og vinnulag, að nefndin fái þann tíma sem hún þarf. Því vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji þennan tíma nægan.