138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ítreka óskir mínar um að nefndinni gangi vel í störfum sínum.

Ég vildi einnig spyrja hv. þingmann, vegna þess að þetta er allt mjög viðkvæmt — eins og þingmaðurinn fór vel yfir eru ýmis álitamál sem taka þarf tillit til og nefndarmenn þurfa að gæta sín í hvívetna á því að segja ekki og gera ekki hluti sem gera þá hugsanlega vanhæfa í einhverjum af þeim niðurstöðum og dómum sem þeir munu koma til með að fella. Hv. þingmaður talaði um verklagsreglur, verða þær birtar? Getum við séð hvað telst til háttsemi sem þingmönnum beri að varast í orðavali og dómum, t.d. hér í ræðum á Alþingi? Er þetta eitthvað sem nefndin hefur hugleitt? Er þetta eitthvað sem nefndin hefur rætt sín á milli?