138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir málefnalega og býsna góða ræðu. Það má taka undir flest sem hann sagði í þeim efnum. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra getur látið í ljós skoðun sína á þætti sem aðeins hefur örlað á í umræðunni varðandi það hvernig við stillum upp til framtíðar varðandi fjármálamarkaðinn. Ég spyr um skoðun hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á því hvort hið opinbera eigi að hafa afskipti af fjármálamarkaðnum með eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum eða hvort fylgja eigi þeirri stefnu, sem vissulega hefur verið fylgt í meginatriðum, að hið opinbera eigi að marka fjármálafyrirtækjum ramma með löggjöf og reglugerðum. Spurningin er þessi: Á hið opinbera að setja ramma með lögum og reglugerðum eða á hið opinbera líka að koma inn í fjármálamarkaðinn með því að eiga og reka fjármálafyrirtæki?

Þetta leiðir hugann að spurningu, sem einnig hefur verið varpað fram í þessari umræðu, en ekki fengist svör við, og það er varðandi eignarhald á nýju bönkunum, þeim bönkum sem fluttir hafa verið úr ríkiseigu, sem stofnaðir voru sem hlutafélög í eigu ríkisins, og hafa nú verið færðir í hendur kröfuhafa. Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað, og m.a. á grundvelli skýrslunnar, þá er mjög mikilvægt að þær upplýsingar komi fram. Ég vísa til þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd þingsins hafa ítrekað spurt að þessu en það hefur dregist nokkuð að fá svör við því. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra getur upplýst okkur um þetta.