138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað athyglisvert í sjálfu sér að ákvörðun hafi verið tekin um það af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að nýju bankarnir skyldu færast í eigu aðila sem enginn í stjórnkerfinu virðist vita hverjir eru. Ég skil þetta ekki alveg. Ég skil ekki alveg af hverju ekki var hægt að afla þessara upplýsinga fyrr. Ég geri mér grein fyrir því að í sumum tilvikum kann að vera flókið að átta sig á þessu en í ljósi umræðu um áhrif eignarhalds á fjármálafyrirtækjum á starfsemi þeirra er óneitanlega athyglisvert að velta því fyrir sér að tekin er ákvörðun um af hálfu þessarar ríkisstjórnar að færa nýju bankana í eigu aðila sem ríkisstjórnin eða aðilar í stjórnkerfinu hafa ekki hugmynd um hverjir eru.