138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætisyfirferð yfir vandamálin. Hins vegar fannst mér fara minna fyrir lausnunum. Maður sá ekki framtíðarsýnina skýra og hann talaði um að það hefði verið rangt gefið og aðalvandinn hefði verið að eigendurnir hefðu farið út af sporinu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað þýðir það þegar matsfyrirtækin mátu bankana fram til 17. apríl 2007 með AAA, alla þrjá, svipað eins og íslenska ríkið? Þetta var með besta mati sem hægt var að fá í heiminum. Hvað þýðir þetta og hver skyldi bera ábyrgð á þessu mati? Eru það Íslendingar? Er það ég? Ætli það séu ekki útlendingar, ætli það séu ekki matsfyrirtækin?

Ég vil síðan spyrja hæstv. ráðherra: Það voru ýmsir aðilar sem lánuðu íslensku bönkunum 12.000 milljarða, 40 millj. kr. á hvern einasta Íslending. Er engin ábyrgð hjá þeim? Ef gamla konan, amman, skrifar upp á lán til barnabarnsins til að kaupa mótorhjól og barnið getur ekki borgað, hver skyldi bera ábyrgð á því? Þetta er nefnilega ekki alveg svona einfalt og hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, að mér skilst, að þetta sé algerlega vandamál Íslendinga. Ég held nefnilega að það sé rangt gefið í löggjöfinni sjálfri og ég hef bent á það í frumvarpi sem ég flutti fyrir tveimur eða þremur vikum, og dreift var á Alþingi, að það væri veila í hlutabréfaforminu sjálfu, það er veila í forminu sjálfu sem gildir um allan heim og hvorki rannsóknarnefndin né hæstv. ráðherra hafa komið auga á það.