138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi ekki í stuttu ávarpi mínu áðan að rekja allar þær tillögur að breytingum til bóta sem ég sé fyrir mér og hef m.a. kynnt með lagafrumvörpum í þinginu. En við getum rætt það allt saman betur við annað tækifæri.

Þingmaðurinn vék aðeins að hinum erlendu matsfyrirtækjum og það er alveg rétt að a.m.k. eitt þeirra gaf öllum stóru bönkunum þremur hæstu lánshæfiseinkunn um skeið og það var vitaskuld fráleitt mat. Það mat byggði á þeirri undarlegu hugsun að bankarnir væru of stórir til að íslenska ríkið gæti látið þá fara á hausinn þegar staðreyndin var sú að bankarnir væru allt of stórir til að ríkið gæti hjálpað þeim ef þeir ættu á hættu að fara á hausinn. Matsfyrirtækin gerðu þar mjög alvarleg mistök og það er reyndar hluti af þeim alvarlegu mistökum sem sömu fyrirtæki hafa gert á öðrum mörkuðum, m.a. gáfu þau alls konar skuldabréfavafningum, bæði vestan hafs og austan, sambærilega einkunn sem síðan hafa reynst heldur verðlitlir pappírar. Í grundvallaratriðum var þar pakkað saman skuldabréfum frá fólki og fyrirtækjum sem áttu enga von til að geta greitt og með því að pakka saman nógu miklu af slíku rusli var talið að hægt væri að réttlæta hæstu einkunn þannig að matsfyrirtækin eiga sinn hluta af því hversu illa er komið fyrir fjármálakerfi heims, þar á meðal því íslenska.

Ég held engu að síður að við verðum að horfast blákalt í augu við það að Íslendingar bera fyrst og fremst ábyrgð á sínum vandamálum alveg eins og Grikkir bera ábyrgð á sínum og Írar sínum. Þetta var kerfi sem við stjórnuðum að mestu og þó að útlendingar hafi eitthvað komið þar við sögu þá verður ekki fram hjá því litið að þetta var íslenskt kerfi sem Íslendingar stjórnuðu og höfðu eftirlit með.