138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt að Íslendingar bera ábyrgð á þessu kerfi í þeim skilningi að þeir þurfa að borga. En kerfið er samt gallað og matsfyrirtækin bera ábyrgð á sínu mati sem gerði bönkunum kleift að sópa til sín fjármagni á mjög lágum vöxtum úr öllum heiminum til Íslands. Þessir peningar fóru ekki til Íslands, ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra að því. Þessir peningar fóru ekki til Íslands. Ég er reyndar ekki búinn að lesa skýrsluna alla en ég bað um það í skeyti til rannsóknarnefndarinnar að hún kannaði hvort þessum miklu lánveitingum til bankanna hefði verið breytt í íslenskar krónur því að hún hefur öll tæki til að kanna það. Ég hef ekki séð það enn þá í skýrslunni að það hafi verið kannað en mér segir svo hugur að þessir peningar hafi aldrei komið til Íslands, aldrei. Þessir peningar eru svo miklir að þeir hefðu sett allt á annan endann á Íslandi ef þeir hefðu komið hingað. Þeir komu hingað og fóru umsvifalaust beint aftur út. Þetta voru útlendingar að lána útlendingum í gegnum íslenska banka.