138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég nái þræðinum í ræðu þingmannsins en ég skal rekja það sem ég held að ég skilji. Í fyrsta lagi er einfalt að svara spurningunni um það hver er formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins því að ég skipaði hann. Það er Rögnvaldur J. Sæmundsson og ég er sem sagt ekki í leyfi frá því starfi. Það er annar maður sem gegnir því starfi. Það er hins vegar rétt að ég fór í leyfi frá því starfi 1. febrúar 2009 en skipaði skömmu síðar annan mann til að gegna starfinu og ég gegni því þá augljóslega ekki lengur sjálfur.

Ég get líka tekið undir að það er margt sem miður fór í íslensku samfélagi á undanförnum árum sem lýsa má sem ónógri samkeppni eða jafnvel brotum á samkeppnislögum. Vitaskuld er það hlutverk Samkeppniseftirlitsins að reyna að bæta úr því. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að Samkeppniseftirlitið hefur unnið og vinnur enn mjög ötullega að þeim málum þó að vissulega skili það ekki alltaf fullkomnu samfélagi. Það er einfaldlega þannig að þessi stofnun gerir sitt besta til að taka á þeim vandamálum sem hún greinir með þeim tækjum og tólum sem hún hefur.

Ég undrast ummæli þingmannsins í þá veru að svo virðist sem ég hafi ekki áttað mig á því að eitthvað væri athugavert á íslenskum mörkuðum eða í íslensku efnahagslífi því að ég var óþreytandi að benda á það, bæði sem formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins og síðan einnig í mínu aðalstarfi í þá daga sem var að vera háskólakennari, og gagnrýna margt sem mér sýndist mega betur fara. Ég kannast því engan veginn við það að þetta hafi farið fram hjá mér.