138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við, sem hæstv. ráðherra hefur ekki almennilega skilið, er það að Samkeppniseftirlitinu ber samkvæmt lögum að taka ákvörðun um það hvort erindi sem berist stofnuninni gefi tilefni til málsmeðferðar eða rannsóknar. Ég var að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hefðu verið einhver mál sem þar komu upp, þegar hann var formaður stjórnarinnar, sem hafi leitt þær hugmyndir af sér að eitthvað væri athugavert varðandi það sem gerðist á fjármálamörkuðum í aðdraganda hrunsins.

Nú situr ráðherra hinum megin við borðið og er að einkavæða bankana upp á nýtt. Gætir hann fyllsta öryggis með það að eigendur nýju bankanna uppfylli þau skilyrði sem samkeppnislög segja til um? Í framhaldi af því spyr ég: Hvað finnst hæstv. ráðherra um þann kafla sem tileinkaður er háskólum landsins þar sem auðmenn voru farnir að styrkja prófessorsstöður við háskólana og hæstv. ráðherra kemur beinustu leið úr fræðasamfélaginu í ráðherrastól?