138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir ýmislegt sem fram kom í ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrst og síðast það að af þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir eigum við að draga lærdóm og við eigum að horfa fram á veginn og fara í það að skoða hvernig við getum komið í veg fyrir að það sem fram kemur í skýrslunni endurtaki sig. Það eru áminningar í skýrslunni, það eru kröfur til alþingismanna um umbætur, það verði okkar meginmarkmið og umbætur í samfélaginu fylgja að sjálfsögðu í kjölfarið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún talar um að hér hafi volæðið í raun hafist 1991. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig var staða samfélagsins þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við 1991? Hverjir höfðu þá setið við völd og hver var staða samfélagsins? Hvernig hefur íslenskt samfélag byggst upp frá þeim tíma, þá og með hruninu?

Í öðru lagi, frú forseti, vil ég spyrja hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur hvort hún telji að hinn frjálsi markaður eigi algerlega að vera settur til hliðar eða hvort hún telji að hinn frjálsi markaður eigi áfram að vera í samspili við aðrar „stjórnmálaskoðanir“ eða hvað eigi að ráða ríkjum í samfélaginu héðan í frá þegar allt fór til fjandans frá og með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks frá 1991.