138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:43]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég notaði ekki orðið volæði, það gerði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ég var bara að lýsa stefnu Sjálfstæðisflokksins, hinni ráðandi stefnu, ekki síst undir forustu fyrrverandi formanns þess flokks, Davíðs Oddssonar. Þetta er einfaldlega lýsing á ákveðinni stjórnmálastefnu á hægri væng stjórnmálanna sem gengur m.a. út á það að hafa lítið regluverk, lítið ríki, lítið eftirlit, lítið aðhald, frjálsan stóran markað sem síðan athafnar sig eftir þörfum. Það var lýsingin. Það kann að vera að þingmaðurinn sé ósammála mér um að svona hafi þetta verið eða þetta hafi verið stefna Sjálfstæðisflokksins en þá hef ég misskilið þá stefnu greinilega í grundvallaratriðum.

Þegar ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks tók við, Viðeyjarstjórnin hét hún, vorið 1991 hafði verið gerð þjóðarsátt árið 1990. Það voru grundvallartíðindi í íslensku þjóðlífi. Það lagði grundvöllinn að þeirri þróun á markaði, launamarkaði og vinnumarkaði, sem síðar varð. Sú ríkisstjórn var mynduð um það að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og það tókst. Það urðu hins vegar mörg áföll á því kjörtímabili. Það varð aflabrestur 1992, það varð þung kreppa, stutt sem betur fer, en m.a. aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu hjálpaði okkur út úr þeirri kreppu. Ég hygg að við séum öll sammála um það.

Hvað síðan gerist í síðari ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins og um einkavæðinguna, sem er raunar efni í sérfund og langan ræðudag á Alþingi, hef ég ekki tíma til að fara yfir á 27 sekúndum — hv. þingmaður spyr mig: Er frjálsi markaðurinn úti? Nei, svo sannarlega ekki. Jafnaðarmenn hafa alltaf stutt frjálsan markaðsrekstur á grundvelli sanngjarnra leikreglna, opinna vinnubragða og skynsamlegs ramma og það var það sem ég var að tala um. Það vantaði regluverkið. Það vantaði rammann og það er á ábyrgð stjórnmálamannanna að setja þann ramma.