138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að það er afar gott að Framsóknarflokkurinn hefur fundið haldreipi sitt í umræðunni um rannsóknarskýrsluna á bankahruninu, við getum glaðst yfir því. Við getum glaðst yfir því að Framsóknarflokkurinn, sem sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum (Gripið fram í: Við gleðjumst ekki neitt.) í tólf löng ár, hafi loksins fundið haldreipið í umræðunni um rannsóknarskýrsluna og 90% lánin.

Ég man ekki hvar ég var þann dag sem atkvæðagreiðslan fór fram, ég skal ganga úr skugga um það, frú forseti, fyrir þingmanninn svo að hann geti haldið ró sinni. Mig grunar reyndar að ég hafi verið í fæðingarorlofi, en það er önnur saga. En skoðanir mínar á þessu og samblandinu af Kárahnjúkavirkjun, 90% lánum, skattalækkunum og öllu hinu sem versta ríkisstjórn allra tíma, ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem sat frá 2003–2007, náði saman um — þetta var eitruð blanda, eins og kemur skýrt fram í rannsóknarskýrslunni ef þingmaðurinn vill lesa hana.