138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:55]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar menn tala um raungildi talna er líka oft gott að hafa í huga aðrar hagtölur í samfélaginu á sama tíma, hvert þær stefndu og hver vöxturinn var, hver þenslan var og verðbólgan o.s.frv. (Gripið fram í.)

Það var gott að hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér upp til að tala um hversu lítils Sjálfstæðisflokkurinn var megnugur í þau 18 ár sem hann stýrði landinu. Nú heyrist mér hver þingmaður Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum koma hér upp til að afneita stefnu Sjálfstæðisflokksins, (PHB: Nei, nei.) til þess að afneita frjálshyggjunni og hinum frjálsa markaði og segjast hafa verið bara einhver peð þegar þeir leiddu ríkisstjórn í tæp 18 ár, þeir voru bara peð í stjórnarsamstarfi með krötum og Framsóknarflokknum. Þetta eru undarlegar söguskoðanir, frú forseti, svo ekki sé meira sagt.

Við skulum líka rifja upp þetta með skattbyrðina því að ég man vel eftir umræðunni um það sem hv. þingmaður reynir nú að búa til smá orðaleik úr, hækkun og lækkun, og gott og vel, látum það vera. Staðreyndin var sú að í valdatíð Sjálfstæðisflokksins fór allt í öfuga átt hvað varðar skattbyrði þegnanna. Hjá þeim sem voru með lægstar tekjur jukust skattarnir mest en hjá þeim sem voru með hæstar tekjur lækkuðu skattarnir. Skattbyrðinni hefur aldrei verið eins ójafnt skipt og undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu. Það er það sem er verið að tala um, það hefur aldrei verið eins mikill ójöfnuður í samfélaginu eins og þessi 18 ár undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.