138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil nú rétt í upphafi áður en hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir víkur úr salnum láta þess getið að ég verð að segja að komin er hörð samkeppni um titilinn: versta ríkisstjórn allra tíma. Sú samkeppni fer aðeins harðnandi dag frá degi.

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir hér fagna því að þessi skýrsla er komin fram. Ég tek líka undir hrós þeirra sem talað hafa til nefndarmanna, skýrslan er afar ítarleg og yfirgripsmikil. Ég verð samt að viðurkenna það — hv. þm. Þráinn Bertelsson er ekki í salnum — að ég er ekki búin að lesa þetta í gegn og ég vona að hann telji ræðu mína ekki of almenna, en endurtek það sem aðrir hafa sagt að þetta er ekki endir allrar umræðu, ég treysti því að þetta sé rétt upphafið. Umræðan hefur að mestu leyti verið mjög málefnaleg og ég fagna því. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór vel yfir ýmsa hluti sem ég hefði gert að umtalsefni mínu og vil ég taka undir þá. Ég vil í upphafi, í stað þess að endurtaka þá þar sem tíminn er naumur, ítreka það sjónarmið sem fram hefur komið að við eigum að ræða skýrsluna af yfirvegun og umfram allt að vera ekki í pólitískum skotgröfum.

Hér hefur verið talað mikið um hugmyndafræði. Ég vil víkja aðeins að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins á eftir vegna þess að um hana hefur verið talað. Áður en ég geri það verð ég að segja að ég tel það á engan hátt vera tilraun til þess að varpa frá sér ábyrgð héðan úr þessu húsi eða frá stjórnmálamönnum yfir höfuð, eða frá stjórnsýslunni, þegar það er tekið fram skýrt og greinilega og bent á hið augljósa að ábyrgðin á hruni bankanna hlýtur að vera að langstærstum hluta á þeim sem störfuðu innan bankanna í forsvari fyrir þá og eigendum þeirra. Það er ekki með neinum hætti hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að það sem gekk á innan bankanna á síðustu árum er algjörlega gegndarlaus áhættusækni og hegðun sem ekkert okkar, sama hvar í flokki við stöndum, er komið hingað í ræðustól til að verja. Það ætla ég ekki að gera.

Mér finnst hreint út sagt grátlegt að horfa upp á framferði eigenda bankanna, hvernig þeir hafa sópað úr sjóðum bankanna. Færeyska orðið „sjálftökubanki“, sem þeir nota reyndar yfir hraðbanka, kom mér í hug þegar ég las skýrsluna. Ég verð að segja alveg einlæglega að það eru mér hrikaleg vonbrigði að svona skyldi hafa verið farið með frelsið, sem ég játa hér fúslega að hafa barist fyrir í stjórnmálum. Ég vil líka játa það fúslega að ég mun halda áfram að berjast fyrir frelsi í stjórnmálum vegna þess að ég tel að frelsið sé það dýrmætasta sem við eigum. En við megum aldrei aftur gleyma því og það má ekki gleymast að frelsinu fylgir ábyrgð. Nákvæmlega eins og í nærtækum hlut eins og barnauppeldi vitum við að til þess að við getum treyst börnunum okkar verðum við að veita þeim ákveðið frelsi. Það er nákvæmlega þarna, mönnum verða á mistök. Þau mistök sem urðu hér eru hroðalega dýrkeypt. Þess vegna er mjög gott að þessi vinna hafi farið fram og þessi skýrsla komið fram. Við lesum orð frá orði hvað hefur gerst og við lærum af því sem fór úrskeiðis. Það er akkúrat það sem við þurfum að gera.

Ég er alls ekki sammála því mati sem forsætisráðherra setti fram í gær að hið frjálsa markaðshagkerfi hafi með þessu brugðist. Ég er heldur ekki sammála því að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðisstefnan, sem hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er byggð á, sé rótin að græðgi bankamanna. Ég bara neita alfarið að setja þar samhengi á milli vegna þess að við megum heldur ekki gleyma því þótt illa hafi farið hér að gráðugir bankamenn eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Er þá græðgi breskra bankamanna Verkamannaflokknum og stefnu hans að kenna? Er græðgi bandarískra bankamanna þarlendum stjórnvöldum að kenna? Nei, það gerðist eitthvað allt annað en það að sjálfstæðisstefnan hefði komið heimskreppunni af stað eða þessum efnahagsvandræðum. Með þessu, til að fyrirbyggja allan misskilning, er ég hvergi að firra Sjálfstæðisflokkinn ábyrgð.

Núverandi formaður flokksins og fyrrverandi formenn og leiðtogar í Sjálfstæðisflokknum hafa sagt það skýrt að þeir axli ábyrgð á því sem aflaga fór. Það getur enginn litið fram hjá þeirri staðreynd og það er sárt fyrir okkur sjálfstæðismenn að bankakerfið hrundi á okkar vakt. Við höfum farið í gegnum mikla endurnýjun. Við höfum farið í gegnum mikla endurnýjun á fólki. Við höfum farið í mikla skoðun á stefnu okkar. Við erum hvergi nærri búin í þeirri vinnu og erum í þeirri vinnu á hverjum einasta degi og ætlum okkur að læra af þessu. Við ætlum okkur að leggja okkar af mörkum til að svona nokkuð megi aldrei koma fyrir aftur. Það er nákvæmlega það sem við hér á þinginu verðum líka að gera.

Ég varð hugsi áðan þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fór að tala um lánshæfismatið. Hann fékk í andsvari fyrirspurn þess efnis varðandi lánshæfismatið árið 2007 að öll lánshæfisfyrirtækin hefðu gefið íslensku bönkunum hæstu einkunn. Það er alveg rétt. Lánshæfisfyrirtækin á þeim tíma voru að því. Þá sagði hæstv. ráðherra að þetta hefði að sjálfsögðu verið fráleitt mat. Fráleitt mat, sagði hæstv. ráðherra. En á þessu mati byggði fólk ákvarðanir sínar, þeir sem voru að lána íslensku bönkunum, hversu gáfulegt sem það var, og það var það sem hv. fyrirspyrjandi Pétur H. Blöndal var að spyrja ráðherrann um. Ég vil þá benda á það að núverandi lánshæfismat þessara sömu fyrirtækja, núverandi mat þessara fyrirtækja er að Ísland sé í ruslflokki. Nú eru íslensku bankarnir í ruslflokki, íslensku fyrirtækin eru í ruslflokki. Eigum við ekki bara að segja eins og hæstv. ráðherra sagði: Þetta er bara fráleitt mat. Eigum við nokkuð að hafa áhyggjur af þessu? Hvaða lærdóm eigum við að draga af því að lánshæfisfyrirtækin voru greinilega algjörlega út úr kortinu á þeim tíma?

Mig langar aðeins, en tíminn hleypur frá mér, að tala um lærdóminn og það sem við getum lært hér á Alþingi og í okkar vinnu og þar bind ég miklar vonir við störf þingmannanefndarinnar sem við fjölluðum um áðan. Hvaða lærdóm eigum við að draga af þessu í sambandi við regluverkið? Nú erum við í hv. viðskiptanefnd að fjalla um lög um fjármálafyrirtæki. Við erum að fjalla um lög um vátryggingastarfsemi og mér var að berast tölvupóstur rétt í þessu sem segir að það mál verði klárað út úr nefndinni. Ég hlýt að spyrja: Þurfum við ekki að taka þennan dóm eða þann fróðleik sem er í skýrslunni inn í vinnuna áður en við afgreiðum þessi mál út? Vegna þess að ég hef verið þeirrar skoðunar, eða hef verið að komast á þá skoðun því meira sem við vinnum með þessa löggjöf í viðskiptanefnd, að það er skiljanlegt að við viljum herða á reglum. Það er skiljanlegt að við viljum hnykkja á atriðum og okkur er öllum svo mikið í mun að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Mér finnst við eiga það á hættu að við sköpum falska öryggistilfinningu, falskt öryggi, vegna þess að við getum bannað alla mögulega hluti. Við getum hert á reglum, hvort endurskoðendur eiga að skipta um fyrirtæki eða hvort fyrirtæki eigi að skipta um endurskoðendur á fimm ára fresti, sjö ára fresti eða tíu ára fresti eða hvað — það breytir ekki því að við þurfum að hafa í gangi eftirlitskerfi þar á meðal t.d. Fjármálaeftirlit, sem fær áfellisdóm hér, og við, löggjafinn og framkvæmdarvaldið, fyrir að hafa ekki verið nógu sterk. Ég spyr: Er Fjármálaeftirlitið eitthvað betur í stakk búið núna? Fjármálaeftirlitið býr við þröngan kost fjárhagslega. Það býr við mikla starfsmannaveltu. Það getur ekki keppt, vegna þess að það er ríkisstofnun, um laun. Nú eru það ekki bankarnir, nú eru það skilanefndirnar. Við erum því ekki komin á þann stað að einungis lagabreytingar sem herða allar reglur geri allt gott og komi í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Við verðum að muna að við berum ábyrgð á því að gera þetta þannig úr garði að við lærum af þessu. (Forseti hringir.) Eftir að hafa fylgst með atburðum eftir hrun og þeirri þróun sem hefur orðið (Forseti hringir.) leyfi ég mér að efast um að við séum komin á þann stað að við höfum lært nokkurn skapaðan hlut.