138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:11]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og sérstaklega varðandi reglurnar. Þær eru svipaðar á heimili mínu, þó hef ég ekki sett reglu um að loka klósettinu enn þá, það hefur ekki komið til þess. En það er alveg rétt, frelsinu verður alltaf að fylgja ábyrgð.

Já, ég held ég taki undir með þingmanninum að þarna hafi verið einbeittur brotavilji á ferð. Þó vil ég segja það með öllum þeim fyrirvara að menn eru saklausir þangað til sekt er sönnuð, en eins og þetta snýr og eins og þetta kemur fram er eitthvað mjög óeðlilegt þarna á ferð.

Ég er algjörlega reiðubúin og hef talað fyrir því, þó svo við séum ekki alltaf sammála í viðskiptanefndinni um leiðir, þá held ég að við séum öll sammála um það að við viljum einmitt koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Þess vegna held ég að við þurfum að nota þann fróðleik sem við fáum úr þessari skýrslu í þær lagabreytingar sem við förum í, því að eins og ég nefndi áðan er ekki nóg að vera bara með einhverja sjö ára reglu á endurskoðendurna. Við verðum að vita nákvæmlega: Hvað þýðir það? Breytir það einhverju? Var það orsök að einhverju að það voru fimm ár en ekki sjö ár, svo ég haldi mig við það dæmi?

En við þurfum klárlega að draga allan þennan lærdóm til að fyrirbyggja að þetta gerist aftur. Okkur ber hreinlega skylda til þess sem alþingismenn og sem fulltrúar hér á þingi. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir talaði um það áðan að við létum það yfir okkur ganga að vinna eftir gömlum aðferðum. Er það það sem er verið að gera í Icesave-málinu til dæmis? Ég hef staðið hér og talað mig bláa í framan og kallað eftir gögnum. Það er mikil gagnrýni í rannsóknarskýrslunni á það að ekki hafi verið haldnar fundargerðir og skortur væri á upplýsingum. Ég hef kallað eftir gögnum og mér er sagt: Ja, það (Forseti hringir.) tíðkast ekki að halda fundargerðir. Það fólk sem er núna við stjórnvölinn (Forseti hringir.) getur breytt vinnubrögðunum. Það er ekki nóg að tala um það og segja svo þegar (Forseti hringir.) kallað er eftir ábyrgð: Það tíðkast ekki.