138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir þessa áskorun. Starfið í nefndinni hefur verið svona, jæja, brokkgengt á köflum, en ég held að hægt sé að leggja þetta algjörlega niður fyrir okkur að ef við ætlum að ná þeim árangri að verða sammála eða ná lendingu, sem við erum öll sátt við og við getum öll barist fyrir og verið sannfærð um, þá held ég að við verðum að leggja saman í þá vinnu frá upphafi. Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að það hefur ekki alltaf verið þannig. Þetta snýst mikið um meiri hluta og minni hluta og fólk setur sig í einhverjar stellingar.

En já, ég tek þeirri áskorun fagnandi og vil líka, vegna þess að bæði formaður og varaformaður hv. viðskiptanefndar eru hérna nærri, hvetja þau og mundi beina þeirri hvatningu einnig til efnahags- og viðskiptaráðherra að viðhafa þau vinnubrögð og að fara ekki að keyra þau mál, sem öll eru brýn og við viljum koma af okkur, út núna í næstu viku þegar það liggur fyrir að önnur nefnd er að skoða þau. Við erum ekki búin að lesa þessa skýrslu. Gerum okkur ekki lífið allt of flókið. Notum tímann frekar til að undirbúa okkur, lesa skýrsluna, læra af henni og setja þau fingraför inn í lagasetninguna og lagabreytingarnar. Ég held að það væri árangursríkari aðferð til að ljúka málinu.