138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þetta með Íbúðalánasjóðinn og ég hafði miklar efasemdir um það á sínum tíma. Ég man nú ekki hvort ég greiddi atkvæði gegn því, ég ætla að kanna það, en ég hef grun um að ég hafi verið sjálfum mér samkvæmur í því.

Mig langar líka til að koma inn á annað atriði sem hv. þingmaður nefndi, sem er breytingar á hlutabréfalögum eða hlutafélagalögum og aukið gagnsæi. Ég færi rök fyrir því í frumvarpi sem ég hef flutt hér ásamt mörgu ágætu fólki að það sé veila í hlutabréfaforminu sjálfu, þ.e. að þetta sé yndislegt tæki til þess að minnka áhættu einstaklinga í atvinnurekstri en þegar hlutafélög fari að eiga í sjálfum sér og öðrum hlutafélögum, myndi raðeignarhald eða jafnvel hringeignarhald, gerist ýmislegt sem er afskaplega erfitt að gera við. Þetta á við um allan heim. Þetta er ekki íslenskt fyrirbæri, því miður, annars gætum við lagað það. Ég hygg að óprúttnir menn geti komist fram hjá öllu því sem menn eru að gera núna með snjöllum hætti, með því að setja inn fleiri og fleiri milliliði, hlutafélög sem eiga svo í öðrum hlutafélögum. Menn reyna að komast fram hjá þessari veilu án þess að átta sig á því að þetta sé veila. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það þurfi ekki að líta á þessa hættu sem er fólgin í hlutabréfaforminu sjálfu.