138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:42]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Ekki ætla ég mér þá dul að þykjast vera sérfræðingur í þeim viðfangsefnum sem hv. þingmaður Pétur Blöndal nefnir en ég tel og finn fyrir því að þingheimur þarf að taka fastar á varðandi frumvörp sem efnahagsráðherra hefur lagt fram í þinginu. Starfsemi Kauphallarinnar og hlutabréfaviðskipti eru mikilvægir þættir í þessu fyrirkomulagi sem við þurfum sannarlega að taka til nákvæmari skoðunar. Þessi markaður liggur mjög lágt um þessar mundir en gagnsæi á þessum markaði er eitt fyrsta boðorðið sem við þurfum að reyna að vinna með. Það frumvarp sem hv. þingmaður hefur lagt fram er að mínu mati lofsvert innlegg í þá umræðu og á að geta fært okkur fram á veg.