138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Þegar íslensku bankarnir voru einkavæddir árið 2003 var um það prýðileg sátt, ekki endilega um hverjir fengju að kaupa heldur að það skyldi selja. Almenn skoðun í samfélaginu var sú að bankar væru betur komnir í einkaeigu en eigu ríkisins með tilheyrandi hættu á pólitískum hrossakaupum og fyrirgreiðslu. Í einkaeigu yrði reksturinn hagkvæmari og nýsköpun og framfarir í þjónustu mundu aukast. Það var mikið álitamál hvernig standa skyldi að einkavæðingu bankanna þegar stjórnmálaflokkarnir voru að sleppa af þeim tökunum. Að mínu mati fór ekki fram nauðsynleg ítarleg umræða um kosti og galla þess að vera með öfluga kjölfestufjárfesta andstætt dreifðri eignaraðild, að áhrifamiklir eigendur gætu verið varasamir tækju þeir eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni bankans og almennings.

Í setningarræðu sinni á 38. landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2009 sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður, með leyfi forseta:

„En stærstu mistök okkar sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess voru gerð við einkavæðingu bankanna fyrir rúmlega sex árum. Með því að falla frá þeirri stefnumörkun sem ákveðin hafði verið um dreifða eignaraðild urðu okkur á mikil mistök. Þegar eigendur bankanna gerðust umsvifamiklir í atvinnulífinu og eignatengsl milli viðskiptablokka urðu gríðarlega flókin og ógagnsæ var stöðugleika bankakerfisins ógnað. Hefðum við sjálfstæðismenn haldið fast við okkar upphaflega markmið um dreifða eignaraðild eru líkur á því að bankarnir hefðu ekki verið jafnsókndjarfir og áhættusæknir og raunin varð.“

Orðræða ýmissa forustumanna annarra stjórnmálaflokka er því miður ekki með þvílíkum hætti. Þar keppast menn fremur við að fría sig og sinn flokk allri ábyrgð, að reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um að helstu mistök þeirra hafi verið að sitja í ríkisstjórnum með Sjálfstæðisflokknum. Ef við viljum læra af mistökum fortíðarinnar og reyna að tryggja að öðruvísi verði staðið að málum verða menn að ganga hreint til verks. Auðvitað sváfu íslensk stjórnvöld á verðinum. Þar er ábyrgð okkar sjálfstæðismanna mikil sem sátum í ríkisstjórn í leiðandi ráðuneytum frá árinu 1991–2009.

Því hefur aldrei verið svarað með fullnægjandi hætti af þeim forustumönnum sem um véluðu hvers vegna horfið var frá áformum um takmarkanir á eignarhlutum við einkavæðingu bankanna. Engu að síður er það skoðun mín að dreifð eignaraðild ein og sér hefði ekki dugað sem viðspyrna gegn þeirri græðgisvæðingu sem hélt innreið sína í kjölfar einkavæðingar bankanna og beið skipbrot við hrun fjármálakerfis landsins í október árið 2008. Í því sambandi nægir að nefna að á síðustu mánuðum hafa verið dregin fram í dagsljósið fjölmörg dæmi um hvernig komið er fyrir sparisjóðakerfi landsins. Hin dreifða eign í sparisjóðunum var engin trygging fyrir hinn almenna stofnfjáreiganda gegn gríðarlegu tapi sjóðanna, né heldur því að einstaka stofnfjáreigendur gátu makað krókinn í ljósi aðstöðu sinnar eins og við þekkjum gerla hér á hinu háa Alþingi. Við fylgdumst ekki gagnrýnir með þegar bankarnir í krafti ódýrs lánsfjármagns á alþjóðlegum fjármálamörkuðum uxu landsframleiðslunni tífalt yfir höfuð, dældu út peningum í fjárfestingar til eigenda sinna og annarra án tilhlýðilegs áhættumats og veða, fóru með innlán eins og um eigið fé væri að ræða, hegðuðu sér eins og vogunarsjóðir í stað íhaldssamra og aðgætinna lánastofnana eins og þeim ber eðli málsins samkvæmt og íslenskir og erlendir starfsmenn bankanna horfðu hjálparlitlir á lögmál hefðbundinnar lánastarfsemi þverbrotin. Ef einhver hreyfði mótmælum voru störfin og fríðindin fljót að fjúka og nægir í því sambandi að nefna og vitna til tölvupósts frá starfsmanni til yfirmannsins en þar segir allt sem segja þarf í þessum efnum. Tölvupósturinn endaði á þessum orðum: „Ég geri allt sem þú segir mér að gera.“ Slík voru völd hinna svokölluðu kjölfestufjárfesta.

Stjórnvöld hefðu átt að staldra við fyrir löngu, áður en að þessu kom. Embættismenn þeirra stofnana sem höfðu sérfræðiþekkingu og það hlutverk að fylgjast með þeim lífæðum samfélagsins áttu að vara við. Við áttum að hlusta betur eftir og rýna í varnaðarorð erlendra banka og matsfyrirtækja en í barnaskap okkar afgreiddum við þá ýmist sem fákunnandi, að þeir ættu að fara í endurmenntun eða væru öfundsjúkir í garð hinna vösku fjármálasnillinga. Meginsökudólgarnir í hruninu eru eigi að síður eigendur og stjórnendur fjármálastofnana sem hvergi í veröldinni virtu góða siði eða venjur í bankastarfsemi í tryllingslegu kappi sínu eftir stundargróða og vellystingum. Ég fullyrði hins vegar að áhrifin af hruni fjármálamarkaða á íslenskan efnahag hefðu orðið minni en raun ber vitni um ef stjórnvöld hefðu ekki sofið á verðinum.

Okkur Íslendingum hættir til að vanmeta mikilvægi fagþekkingar og finnst iðulega við vera fær í flestan sjó. Í miðju útlána- og fjárfestingafylleríinu trúðum við því að hér á Íslandi væri kominn arftaki þeirra í breska City og Wall Street. Samdar voru skýrslur um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð og forseti Íslands taldi að Bandaríkjamenn ættu að líta til Íslands, annars væri hætta á að þeir drægjust aftur úr. Ungt fólk nýkomið úr skóla var keypt til starfa í fjármálafyrirtækjum og án nokkurrar reynslu af starfi bankakerfa eða fyrirtækja tók það frá degi til dags ákvarðanir eða kom með ráðleggingar sem reynst hafa fyrirtækjum og einstaklingum dýrkeyptar. Af þessu getum við lært, ekki bara hvert hlutverk banka er heldur einnig að til þess að ná árangri þarf hægt og bítandi að byggja upp reynslu og þekkingu á flóknum og alþjóðavæddum heimi viðskipta. Þetta höfum við gert með aldalangri uppbyggingu íslensks sjávarútvegs og iðnaði honum tengdum, í ferða- og flugþjónustu sem byggst hefur upp á síðastliðnum 60 árum og hófst með Loftleiðaævintýrinu í lok síðustu heimsstyrjaldar og í hátækniiðnaði sem byggir á grunni menntunar í tölvunar- og verkfræði og stenst samanburð við það sem best gerist erlendis, auk þess sem okkar fólk á þeim sviðum sækir sér menntun í fremstu háskólum heims. Í opinbera geiranum má nefna sem dæmi heilbrigðiskerfið sem er með því besta í veröldinni. Þar er einnig byggt á langri hefð fyrir úrvals menntun hér á landi, auk þess sem íslenskir læknar sækja sér undantekningarlítið menntun í fremstu háskóla og sjúkrahús veraldar. Við getum enn fremur lært af þessari reynslu að ana ekki út í hluti á þeim risaskala sem við höfum gert, lært í þetta skipti af hruni heils fjármálakerfis og áður atvinnugreina eins og fiskeldis og loðdýraræktar sem allt of margir fóru út í án tilhlýðilegrar þekkingar og undirbúnings.

Það er áleitin spurning hvernig íslensku bankarnir þrír gátu veitt hundruð milljarða lán án trygginga, lán sem voru andstæð öllum lánareglum og runnu í mörgum tilfellum í glórulausar fjárfestingar. Svigrúm bankastarfseminnar fyrir utan lög og rétt virðist hafa verið umtalsvert og þar hefur margt þrifist sem ríkið náði ekki til og mun aldrei ná til. Með afnámi hafta á grunni tilskipana Evrópusambandsins og með lögum frá Alþingi var fjármálageiranum leyft að leika innan þess ramma. Skyndilegt hrun íslenska bankakerfisins kom ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Áhættan var sýnileg. Mikið var um hana fjallað, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Innlánstryggingakerfið var of veikt til að kljást við kerfishrun af þeirri stærðargráðu sem raun bar vitni.

Almenningur á Íslandi hafnar harkalegum niðurskurði almennrar þjónustu og lífskjara af völdum þeirra einstaklinga og stofnana sem bera ábyrgð á fjármálakreppunni en með almennri þjóðnýtingu taps einkaaðila er ætlast til þess að Íslendingar greiði fyrir ófyrirleitna áhættufíkn einkaaðila. Stjórnmála-, ráða-, og embættismenn sem settir höfðu verið til að vakta bankakerfið hefðu átt að sjá margt af þessu fyrir og gera ráðstafanir til að afstýra hruni eða draga úr áhrifum þess. Það gerðu þeir illa eða alls ekki. Hinir sem eftir standa eiga að nýta þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar til þess að forða því að mistökin endurtaki sig, ekki telja sig handhafa hins eina rétta sannleika og vera óskeikulir um öll mál, líkt og því miður ber oft of mikið á í umræðu um menn og málefni líðandi stundar og ekki síst í því máli sem við ræðum hér.