138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem kom mér á óvart við annars ágæta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hversu mikið við vissum í raun af vafasömum viðskiptum eigenda og stjórnenda bankanna á meðan á stærsta bankahruni sögunnar stóð. Enginn virtist hins vegar hafa þor, þekkingu og burði til að stoppa eigendur og stjórnendur bankanna sem rændu auði þjóðarinnar fyrir framan nefið á þeim sem áttu að gæta hagsmuna almennings.

Eftirlitsstofnanir, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið brugðust íslensku þjóðinni sem nú þarf að borga með eignaupptöku, tekjumissi og velferðinni. Þjóðin mun á næstu árum þurfa að fara í gegnum miklar þrengingar af völdum bankahrunsins. Hún á því heimtingu á því að þeir aðilar sem áttu að gæta hagsmuna hennar axli ábyrgð og biðjist afsökunar.

Einstaklingum sem reyndu að vara við því sem var að gerast á útrásartímanum var mætt með hroka, persónulegum árásum og ásökunum um að spilla fyrir framþróun. Val þessara einstaklinga stóð því oftast milli þess að þegja og spila með eða eiga á hættu útskúfun. Samfélagið einkenndist af kunningjatengslum, óformlegum samskiptum og sögusögnum um persónubresti þeirra sem voguðu sér að gagnrýna fyrirtækjaeigendur, stjórnir fyrirtækja, stjórnendur, embættismenn og ráðherra.

Frú forseti. Ég tek undir með rannsóknarnefnd Alþingis um að lykillinn að farsælu endurreisnarstarfi sé að horfast í augu við mistök sem gerð voru. Það er hins vegar ekki nóg að viðurkenna mistökin. Við verðum jafnframt að gera breytingar sem ekki aðeins ná til regluverksins heldur taka einnig á gildum, stefnu og starfsháttum í viðskiptalífinu, stjórnkerfinu og stjórnmálum.

Virðulegi forseti. Mikil vinna hefur nú þegar farið fram í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og viðskiptanefnd við að meta hvernig breyta þurfi lögum og reglum til að koma í veg fyrir að eigendur og stjórnendur banka geti aftur rænt þá og komið skuldum sínum yfir á þjóðina. Breytingar sem gefa eftirlitsstofnunum aukin völd til að krefjast upplýsinga frá bönkunum um m.a. lánveitingar þeirra og til að skipta sér af starfsemi þeirra.

Auk þess eru lagðar til hertar reglur um eigið fé, lánveitingar til eigenda og tengdra aðila og um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og innri endurskoðenda banka. Þetta eru allt skref í rétta átt en ganga má lengra í að takmarka völd eigenda og stjórnenda fjármálafyrirtækja til að ráðskast með almannafé í eigin þágu. Viðskiptanefnd hefur lagt ríka áherslu á að bankarnir hafi sjónarmið eins og gagnsæi, jafnræði, samkeppni og orðspor einstaklinga að leiðarljósi við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Nefndin tekur jafnframt eftirlitshlutverk sitt alvarlega og hikar ekki við að kalla eftir upplýsingum til að varpa ljósi á umdeild mál.

Frú forseti. Það vakti vissulega athygli mína að rannsóknarnefndin nefndi ekki ófullnægjandi löggjöf sem meginástæðu þess að Fjármálaeftirlitið brást í eftirlitshlutverki sínu. Ástæðurnar voru þess í stað röng forgangsröðun, ófullnægjandi upplýsingakerfi, skortur á festu og ákveðni við úrlausn og eftirfylgni mála. Í stað þess að koma málum í lögformlegt ferli þegar ljóst varð að fjármálafyrirtæki fylgdu ekki lögum og reglum var látið nægja að senda skriflegar athugasemdir.

Þetta dæmi sýnir að laga- og reglugerðarbreytingar eru brýnar en geta einar og sér ekki komið í veg fyrir að einstaklingar sinni ekki skyldum sínum eða misnoti aðstöðu sína eins og allt of oft var raunin í aðdraganda bankahrunsins.

Auk hertra laga um fjármálafyrirtæki þarf að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að byggja upp faglega og tæknilega þekkingu sem er á heimsmælikvarða. Til að það takist verður að leyfa stofnuninni að skattleggja fjármálafyrirtæki eftir þörfum til að fjármagna m.a. launagreiðslur til starfsfólks sem þurfa að vera mun hærri en almennt gerist hjá öðrum eftirlitsaðilum og fjármálafyrirtækjum. Það á nefnilega að vera eftirsóknarvert að vinna fyrir Fjármálaeftirlitið, almannahagsmunir krefjast þess.

Frú forseti. Við þurfum sem þjóð að taka höndum saman um að útrýma afskiptaleysi gagnvart einstaklingum sem sniðganga og brjóta lög og reglur í krafti stöðu sinnar, tengsla og persónutöfra. Ekkert umburðarlyndi á að viðgangast gagnvart innherjaviðskiptum, markaðsmisnotkun og þeim sem setja eigin hagsmuni ofar samfélagshagsmunum. Auka þarf umburðarlyndi gagnvart þeim sem þora að gagnrýna leyndarhyggjuaðgerðir og -aðgerðaleysi þeirra sem fara með völdin í atvinnulífinu og stjórnmálum, sérstaklega þegar gagnrýnin er knúin fram af almannahagsmunum frekar en eigin hagsmunum. Koma verður í veg fyrir að hegðun einstaklinga og hópa mótist af sérhyggju, m.a. með því að gera kröfu um faglegt mat á einstaklingum sem veljast til ábyrgðarstarfa í atvinnulífinu og stjórnsýslunni. Auk þess þarf að tryggja formleg samskipti aðila sem taka veigamiklar ákvarðanir og sem snerta almannaheill þannig að hægt sé að rekja hver vissi hvað og hvenær, og hverjir bera ábyrgð á því sem gert var.

Frú forseti. Ein orsök hrunsins var efnahagsstefna sem mótaðist fyrst og fremst af hugmyndafræði og hagsmunum stjórnmálaflokka við völd en ekki langtímahagsmunum almennings. Rannsóknarnefndin nefnir í skýrslu sinni nokkur afar gagnrýnisverð dæmi um stefnu stjórnmálaflokka sem sérfræðingar vöruðu við á sínum tíma. Þeir voru hunsaðir. Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks lækkaði t.d. skatta og breytti útlánareglum Íbúðalánasjóðs en báðar þessar aðgerðir voru þensluhvetjandi og ýttu undir eignabóluna. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lét t.d. undir höfuð leggjast að hvetja einn eða fleiri banka til að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi með hörmulegum afleiðingum fyrir íslenska ríkið sem er nú eitt skuldsettasta ríkið á Vesturlöndum.

Ábyrgð stjórnmálaflokkanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar er mikil og ég vænti þess að gjörbreyting verði á stefnu þeirra hvað varðar stóriðjuframkvæmdir, afskiptaleysi af atvinnulífinu og vöxt atvinnulífsins á kostnað velferðarinnar í samfélaginu. Núverandi stjórnarflokkar verða að taka niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar alvarlega og hlusta m.a. á gagnrýni sérfræðinga á efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Áætlunin hefur verið gagnrýnd fyrir að draga taum kröfuhafa og fjármagnseigenda frekar en almennings með endurreisn allt of stórs bankakerfis, of háu vaxtastigi og mikilli skuldsetningu ríkissjóðs.

Frú forseti. Efnahagsstefna okkar eftir hrun efnahagslífsins á að felast í að leiðrétta tekjuójöfnuð sem jókst gífurlega á síðustu árum. Hún á jafnframt að felast í að leiðrétta eignatilfærsluna frá skuldurum til fjármagnseigenda. Slík efnahagsstefna er í samræmi við hagsmuni þeirra sem enga ábyrgð bera á efnahagshruninu.

Frú forseti. Tími uppgjörs og réttlætis er upp runninn.