138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún var reyndar dálítið mikið í fortíðinni, lítið í framtíðinni og eiginlega ekkert í núinu. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann, af því að hún nefndi ágætishugmynd, þ.e. að laun yrðu hækkuð stórlega hjá Fjármálaeftirlitinu, hvort hún muni þá vilja fara upp fyrir laun forsætisráðherra í því sambandi. Ef við fengjum mjög góðan sérfræðing frá útlöndum, sem sætti sig ekki við minna en 2–3 millj. á mánuði, hvernig færi það saman við að minnka launamun í landinu og að menn eigi að setja almannahagsmuni umfram eigin hagsmuni, þ.e. að ráða ekki þá sem setja eigin hagsmuni umfram almannahagsmuni? Hvað ætlar hún að gera við mann sem er afskaplega fær á þessu sviði en vill fá há laun af því að hann setur eigin hagsmuni umfram almannahagsmuni og er bara mannlegur að því leyti?

Svo segir hún að faglegt mat eigi að koma í veg fyrir sérhyggju. Nú líst mér á. Ég vildi gjarnan fá nánari útlistun á því hvað þetta þýðir áður en farið er að senda menn í sálfræðipróf og sjá til, hugsi þeir til vinstri fá þeir vinnu. Þeir sem hugsa til hægri fá ekki vinnu. Er þetta ný stefna sem við munum sjá fram í hinu nýja kommúníska Íslandi?

Svo talaði hún um að lækka skatta. Ég hef spurt nokkrum sinnum: Eru hækkandi skatttekjur ríkissjóðs merki um lækkandi skatta sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á nánast hvaða mælikvarða sem er? Er það lækkun skatta þegar skatttekjur ríkisins stóraukast og útgjöld ríkisins til velferðarkerfisins aukast sem aldrei fyrr?