138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér er strax rórra að hv. þingmaður ætli ekki að fara að senda umsækjendur í sálfræðipróf til að vita hvort þeir séu sérgóðir í of miklum mæli og hugsi um samfélagið í heild sinni því að það mundi þýða það að sjálfstæðismenn fengju væntanlega ekki vinnu héðan í frá. En mig langar, af því að ræða hv. þingmanns var meira í fortíðinni, að spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hún framtíðina? Hvað þarf að gera á Íslandi? Hvernig getum við lært af þessari mjög svo góðu skýrslu til framtíðar? Ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmaður hefur ekki lesið skýrsluna frekar en ég, ekki nema lítið brot. Ég vil spyrja hana: Hvað þarf að gera t.d. í stjórnsýslunni, t.d. varðandi hlutabréfamarkaðinn sem hv. viðskiptanefnd, sem hv. þingmaður veitir forstöðu, er að fjalla um? Hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir að þetta sama gerist aftur, t.d. varðandi Icesave? Nú er hv. þingmaður eða ríkisstjórn hennar búin að einkavæða tvo banka og fór lítið fyrir því, það gerðist hljóðlega. En getur nákvæmlega það sama gerst aftur með Tryggingarsjóð innstæðueigenda, að þeir dæli inn innlánum einhvers staðar í útlöndum og allt fari á sama veg, að við fáum nýtt Icesave sem heitir þá eitthvað annað, Snowsave eða eitthvað svoleiðis? Er eitthvað búið að gera sem tryggir að þetta gerist ekki og er eitthvað fleira sem þarf að gera t.d. varðandi lán hlutafélaga til eigenda sinna langt fyrir ofan í eigendaröðinni, þ.e. í gegnum langa keðju af eignarhaldi? Er eitthvað búið að gera til að hindra þetta?